Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Vill gefa út hálendisakstursleyfi

23.08.2018 - 14:56
Mynd með færslu
 Mynd: Páll Jónsson
Páll Jónsson, leiðsögumaður og lögreglumaður segir að ekki sé nóg gert til að koma í veg fyrir utanvegaakstur. Hann leggur til að hálendið verði gert að þjóðgarði og þeir sem þangað vilji fara verði látnir horfa á kennslumyndband og greiða 5000 krónur fyrir sérstakt hálendisakstursleyfi.

Páll hefur farið víða um hálendið og hefur orðið vitni að utanvegaakstri. 

„Fyrir mig að fara upp í Landmannalaugar í dag þetta er bara sárt  - í þessu fallega landslagi bara hreinlega sárt að sjá hvernig þetta allt er orðið. Og svo þegar maður kemur inn á Skeiðarársand, þar er náttúrlega allt út keyrt. Ég man nú varla eftir því jafn slæmu og núna meðfram veginum.“ 

Hann segir að Íslendingar virðist vera ráðalausir gagnvart utanvegaakstri. „Við erum að setja einhverja miða í bílaleigubílana og kannski að láta einhvern starfsmanna biðja fólk um að vera ekki að fara í utanvegarakstur. Þetta er bara vitleysa þetta virkar ekki.“

Páll vill að gert verði sérstakt myndband þar sem fram kemur allt um utanvegaakstur og hvernig á að aka á hálendinu.

„Það á setja upp aðstöðu með sófa og skjá þar sem þeir sem ætla að leigja sér bílaleigubíl fjórhjólsbíl inn á hálendið þeir þurfa að horfa bara á myndband. Þeir fá ekki að leigja bílinn nema að þeir horfi á þetta myndband kannski 15 mínútna langt myndband þar sem landvörður og lögreglumaður skýrir út fyrir fólki hvernig á að aka á hálendinu.“

Einfaldast væri að gera hálendið eins og það leggur sig að þjóðgarði. Þeir sem ætli að aka í þjóðgarðinum verði að horfa á myndbandið.

„Þegar þú ert búinn að horfa á þetta myndband að þá myndir þú fá skírteini eða eitthvað frá bílaleigunni sem bílaleigan gæti gefið út. Skírteini um að þú sért búin að horfa á þetta myndband akstursleyfi inn á hálendið og fyrir þetta borgar þú kannski 5000 kall.  Við getum sagt sem svo 3 milljónir ferðamanna koma til landsins á þessu ári. Þrjúhundruð þúsund myndu kaupa þessa akstursheimild. Það er einn og hálfur milljarður á ári.“

Fyrir þann peningi væri mjög einfalt að halda uppi lögggæslu, öryggisþjónustu hjalparsveitanna, landvörslu og flottum salernum út um allt. 
Páll segir að ekki sé nóg að setja stýrisspjöld í bíla. 

„Það er bara af og frá að það sé nóg. Það er bara búið að prófa það og það virkar ekki. Við erum búin að reyna það. Það þarf ekki að gá meira af því.“