Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Vill fresta fyrningu kynferðisbrota

22.11.2011 - 18:10
Mynd með færslu
 Mynd:
Grundvallarbreyting verður gerð á lögum um refsingar fyrir kynferðisbrot gegn börnum verði frumvarp Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra samþykkt. Hann kynnti frumvarp í ríkisstjórn í dag þess efnis að kynferðisbrot gegn börnum byrji ekki að fyrnast fyrr en börn hafa náð átján ára aldri.

Með frumvarpinu er verið að hrinda í framkvæmd svokölluðum Lanzarote sáttmála Evrópuráðsins og styrkja réttarstöðu barna. .

„Það felst í því þessi hugsun að fyrning á brotum gegnu börnum hefst ekki fyrr en þau hafa náð fullorðinsaldri, hefst ekki fyrr en þau verða átján ára gömul. Í þessu er fólgin grundvallarbreyting,“ segir Ögmundur.

Kynferðisbrot gegn börnum, önnur en nauðganir, fyrnast ýmist á fjórum eða tíu árum. Með fyrirhugaðri breytingu getur fyrningarfresturinn lengst um mörg ár. En það eru fleiri breytingar fyrirhugaðar í baráttunni gegn kynferðisbrotum gagnvart börnum.

„Sá sem reynir að tæla barn til sín til kynferðismisnotkunar þarf ekki að ná vilja sínum fram til að vera sakhæfur. Það eitt er núna nægilegt að hann hafi sannanlega verið að reyna að tæla barn til sín. Það hafa verið dæmi um það hér á landi að ekki hafi verið hægt að leita réttar barnsins vegna þessarar brotalamar í löggjöfinni.“