Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Vill forgangsraða í málefnum hælisleitenda

15.12.2016 - 21:17
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra, og Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, vilja bæði að íslensk stjórnvöld grípi til einhverra aðgerða vegna straums hælisleitenda frá Makedóníu og Albaníu til landsins. Ingibjörg segir að forgangsraða þurfi í þágu þeirra sem eru í neyð átakasvæðum. Björn segir engan sem þekki til mála í Albaníu og Makedóníu skilja hvað knýr fólk þaðan til að fljúga alla leið til Íslands.

Tilefnið er frétt RÚV í gær þar sem fram kom að metfjöldi hælisleitenda hefði komið hingað til lands í síðasta mánuði. Alls hefðu borist 225 umsóknir eða fleiri en allt árið 2014. Mest hefði fjölgunin verið frá meðal fjölskyldufólks frá Makedóníu og Albaníu en í nóvember sóttu 180 makedónar um hæli hér á landi.

Þá kemur fram í frumvarpi til fjáraukalaga, sem dreift var á Alþingi í gær, að kostnaður vegna hælisleitenda hefði aukist um tæplega einn og hálfan milljarð umfram gildandi fjárlög. Lagt var til að 700 milljónum yrði varið til að mæta þessum aukna fjölda en í fjárlagafrumvarpinu, sem lagt var fram í byrjun mánaðarins, er gert ráð fyrir að kostnaður vegna þessa málaflokks verði rúmur milljarður.

Ingibjörg Sólrún segir á Facebook-síðu sinni, þar sem hún deilir áðurnefndri frétt RÚV, að skilji ekki þá stöðu sem uppi er á Íslandi. Þó hún hafi að vissu leyti skilning á því að fólk frá þessum tveimur löndum leiti að betri lífskjörum annars staðar og Ísland geti tekið við fleira fólki sem er í atvinnuleit þá séu „Makedónía og Albanía hins vegar ekki átakasvæði og því fullkomlega óeðlilegt að verja tíma og fjármunum í að skoða hundruðir hælisumsókna frá þessum löndum meðan þúsundir kvenna, karla og barna eru í neyð á átakasvæðum heimsins. Forgangsröðum í þágu þeirra sem eru sannarlega á átakasvæðum,“ skrifar ráðherrann fyrrverandi sem er í dag umdæmisstjóri UN Women í Tyrklandi. 

Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, skrifar á svipuðum nótum á vefsvæði sínu um frétt RÚV. Enginn sem þekki til mála í Makedóníu eða Albaníu skilji hvað knýr fólk þaðan til að fljúga alla leið til Íslands. Hann hvetur íslensk stjórnvöld til að grípa til enn harðari úrræða en gert hefur verið til að stöðva straum þessa fólks til landsins.  Sjálfur telur Björn að ein ástæðan fyrir þessum straumi fólks frá löndunum tveimur sé sú ákvörðun Alþingis að veita albanskri fjölskyldu ríkisborgararétt í desember á síðasta ári. 

Allsherjar-og menntamálanefnd samþykkti þá að veita tveimur albönskum fjölskyldum ríkisborgararétt en þær áttu báðar langveika syni.  Unnur Brá Konráðsdóttir, þáverandi formaður nefndarinnar, sagði við þetta tilefni að ákvörðun hennar í þessum málum.væru ekki fordæmisgefandi