Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Vill fasteignagjöld af stíflumannvirkjum

06.08.2014 - 19:36
Mynd með færslu
 Mynd:
Formaður bæjarráðs Fljótsdalshéraðs gagnrýnir að sveitarfélagið fái engin fasteignagjöld af mannvirkjum Kárahnjúkavirkjunar. Einungis eru greidd gjöld af stöðvarhúsinu sem er í öðru sveitarfélagi.

Landsvirkjun greiðir fasteignagjöld af stöðvarhúsum en ekki stíflum. Það kemur ekki að sök þar sem stíflur og stöðvarhús eru í sama sveitarfélaginu en það á ekki við um Kárahnjúkavirkjun. Stærstu stíflurnar eru á Fljótsdalshéraði en stöðvarhúsið í Fljótsdalshreppi. Í fyrra fékk hreppurinn samtals rúmar 105 milljónir í fasteignagjöld, megnið vegna stöðvarhússins í Fljótsdal. Í hreppnum bjuggu 68 um áramót.

Fljótsdalshérað stendur ekki eins vel. Það ber uppi ýmsa þjónustu og skuldar næstum 8 milljarða en þar búa næstum 3500 manns. Gunnar Jónsson, formaður bæjarráðs segist þó ekki ásælast virkjunartekjur Fljótsdælinga. 

„Fljótsdælingar eru með stöðvarhúsið og þeir eiga jú að fá sín eðlilegu gjöld af því. Því sem á að breyta er að stíflumannvirki og línumannvirki séu gjaldskild til fasteignagjalda. Einhver stærstu mannvirki íslandssögunnar eru þarna og af því fær Fljótsdalshérað engin gjöld í dag.“

Gunnar segir vilja til að sameinast Fljótsdalshreppi en sá vilji hefur ekki verið gagnkvæmur.

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra ítrekar í samtali við fréttastofu að hún hafi ekki verið hlynnt lögþvinguðum sameiningum sveitarfélaga og að það eigi einnig við um Fljótsdalshérað og Fljótsdalshrepp. Henni hugnast ekki að ráðherra meti hvort rétt sé að sameina sveitarfélög, það sé hlutverk íbúa. Ríkið geti hinsvegar undirbyggt sameiningu og aðstoðað með ýmsum hætti.