Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vill fá þetta beint í æð

Mynd: Rúv / Rúv
„Við ætlum að fara á svæðið, heyra hljóðið í fólki og fá þetta beint í æð frá þeim sem hafa búið við þetta leiðinda ástand núna í allt of langan tíma,“ segir Kristján Þór Júlíusson, Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Fimm ráðherrar flugu norður í hádeginu. Til stendur að skoða aðstæður þar sem verst urðu úti í óveðrinu, Dalvík, Skagafjörð og fleiri byggðarlög.

Kristján segist hafa fylgst vel með undanfarna daga. Hann þekki þetta af eigin raun sem fæddur og uppalinn Dalvíkingur. „Það sem er dálítið einkennilegt við þetta mikla áhlaup er það hvað það tekur til stórs landsvæðis, þetta er ekki bundið við einn stað, þetta er auðvitað gríðarlega breitt og mikið svæði.“

Hann segist vænta þess að ferðin skili betri skilning á þeim aðstæðum sem fólk búi við þar sem flutningskerfi raforku skili ekki því sem vilji stendur til að það geri, sem í raun hafi svo áhrif á alla aðra innviði.

Vonast eftir uppbyggilegum samtölum 

Hann segir að ekki sé skrýtið að það séu vonbrigði með þessa stöðu sem upp sé komin. Á árinu 2019 eigi að vera hægt að vera betur í stakk búin til að takast á við slík áföll. Það vanti eitthvað upp á skipulag, framkvæmdir og regluverk.

Hann segir það öllum til góðs að eiga skoðanaskipti um þá stöðu sem upp er komin í þessu tilviki. Hann voni að ráðherrar eigi uppbyggileg og góð samtöl við fólk á svæðinu. Ferð eins og þessi muni „miða að því að gera okkur betur undir það búin að mæta næsta áfalli því það er ekki spurning hvort heldur hvenær slíkt kemur.“  

Ráðherrar skipti með sér verkum á leiðinni norður. Stefnt sé að því að ná yfir sem stærst svæði.

Ríkisstjórnin skipaði átakshóp vegna fárviðrisins

Ríkisstjórnin samþykkti í morgun að skipa starfshóp fimm ráðuneyta sem á að meta hvaða aðgerðir eru færar til að efla innviði í flutnings- og dreifikerfi raforku og fjarskiptum til að tryggja að slíkir grunninnviðir séu sem best í stakk búnir til að takast á við ofsaveður eða aðrar náttúruhamfarir.

Til viðbótar við öryggi í raforku og fjarskiptum skoðar hópurinn samgöngur, byggðamál og dreifikerfi RÚV. Er það mat ríkisstjórnarinnar að öryggi í þessum samfélagslegu innviðum lúti að þjóðaröryggi.