Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vill fá að selja lögreglustöðina og Tollhúsið

25.09.2019 - 10:25
Mynd: Freyr Arnarson / RÚV
Í nýju fjárlagafrumvarpi óskar fjármálaráðherra eftir heimild til að leigja út Hegningarhúsið í Reykjavík, selja lögreglustöðina við Hverfisgötu og ganga til samninga um byggingu nýrrar flugstöðvar við Reykjavíkurflugvöll. Þá vill ríkið eignast stórt landsvæði við Dimmuborgir. 

Hefð er fyrir því að í fjárlögum hvers árs sé fjármála- og efnahagsráðherra veitt heimild til að ráðstafa tilteknum eignum ríkissjóðs. Í fjárlagafrumvarpinu sem Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, hefur mælti fyrir á Alþingi eru því taldar upp eignir sem ríkisstjórnin vill geta selt, leigt eða keypt á næsta fjárlagaári. 

Íslenska ríkið á fasteignir um allt land. Meðal þess sem ráðherra vill fá heimild til að selja er til dæmis fyrrum fasteign Landhelgisgæslunnar við Seljaveg í Reykjavík, Tollhúsið við Tryggvagötu, lögreglustöðina við Hverfisgötu, húsnæði Héraðsdóms Reykjavíkur við Lækjartorg og húsnæði Landlæknis við Rauðarárstíg. Þá vill ráðherra fá heimild til þess að leigja Hegningarhúsið við Skólavörðustíg út.

Á landsbyggðinni er fjöldi fasteigna og jarða, bæði í þéttbýli og dreifbýli sem yfirvöld vilja selja, eða leigja. Þar má nefna ónotað land Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri, hluti af jörð við Litla-Hraun, fyrrum vitajarðir, skrifstofuhúsnæði sementsverksmiðjunnar á Akranesi og fleira.

Það er þó ekki víst að þessar eignir verði seldar á næsta ári. Ráðherra hefur raunar þegar heimild til þess að ráðstafa mörgum eignanna á fjárlögum ársins 2019.

Ríkisstjórnin óskar einnig eftir heimild þings til að kaupa og leigja. Ríkið vill kaupa ríflega þriggja hektara landsvæði við Dimmuborgir, taka á leigu fasteignir fyrir búsetuúrræði á vegum Útlendingastofnunar, kaupa húsnæði Lækningaminjasafnsins af Seltjarnarnesbæ og semja við Reykjavíkurborg um lóð undir nýja flugstöð sem fyrirhugað er að reisa við flugvöllinn í Vatnsmýri, svo fátt eitt sé nefnt.