Vill ekki virkja en leggur til að virkjun verði leyfð

11.01.2020 - 13:07
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra segist ekki vilja neinar nýjar virkjanir innan fyrirhugaðs miðhálendisþjóðgarðs en ætlar þó að leggja til að Skrokkölduvirkjun fari í nýtingarflokk. Betra sé að koma þriðja áfanga rammaáætlunar í gegnum Alþingi en ekki, annars geti rammaáætlunarferlið liðast í sundur. Hann ætlar í febrúar að leggja fram tillögu að rammaáætlun óbreytta frá tíð fyrri umhverfisráðherra.

Guðmundur Ingi ætlar að leggja fram þingsályktunartillögu um þriðja áfanga rammaáætlunar á Alþingi í febrúar, ásamt frumvarpi um að stofna miðhálendisþjóðgarð.

Tillagan verður óbreytt frá tíð fyrri umhverfisráðherra, Sigrúnar Magnúsdóttur og Bjartar Ólafsdóttur, eins og Kjarninn hefur fjallað um. Alþingi afgreiddi ekki þeirra tillögur. Þar er Skrokkölduvirkjun, vatnsaflsvirkjun sem Landsvirkjun vill gera á svæðinu milli Vatnajökuls og Hofsjökuls, í nýtingarflokki.

Guðmundur Ingi segir „mjög mikilvægt að Alþingi nái að klára að afgreiða rammaáætlun, því að ég óttast að annars kunni hún að liðast í sundur.“ Þá stæðu menn verr að vígi. Mikilvægt sé að ná að vernda þá staði sem settir eru í verndarflokk, meðal annars jökulsárnar í Skagafirði, Skjálfandafljót og Skaftá.

Þegar tillaga fyrri ráðherra lá fyrir var Guðmundur Ingi framkvæmdastjóri Landverndar. Í umsögn Landverndar, sem Guðmundur Ingi skrifaði undir, er lögð sérstök áhersla á að allar virkjunarhugmyndir inni á miðhálendi Íslands fari í verndarflokk og þar verði stofnaður þjóðgarður. Hið minnsta ættu virkjunarhugmyndir á svæðinu, sem í þingsályktunartillögunni eru settar í nýtingarflokk, að færast í biðflokk á meðan stofnun þjóðgarðs væri til skoðunar.

Guðmundur Ingi segir nú að með því að leggja tillöguna fram óbreytta frá tíð forvera sinna séu meiri líkur á að þingið afgreiði hana.

Skrokkölduvirkjun yrði innan marka miðhálendisþjóðgarðs. „Ég persónulega myndi að sjálfsögðu vilja hafa þetta þannig að við myndum ekki ráðast í neinar nýjar virkjanir þarna,“ segir Guðmundur Ingi. Hann vill að strangari viðmið gildi um virkjanir innan þjóðgarðsins. Þar með væri þeim svæðum í raun tryggð meiri vernd en þau njóti í dag.

Hann segir að tillagan, sem hann hyggst leggja fyrir þingið, gangi ekki gegn hans sannfæringu. „Heldur erum við að finna lausn á máli sem að hefur náttúrulega verið bitbein í samfélaginu í mjög langan tíma og er enn,“ segir Guðmundur Ingi.

tryggvia's picture
Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV