Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vill ekki grípa til ósiðaðra aðgerða gegn spillingu

17.11.2019 - 16:49
epa07820544 President of Namibia Hage Geingob attends a plenary session of the World Economic Forum on Africa (WEF) titled Africa: Rising Continent in a Fractured World at the Cape Town International Convention Centre, in Cape Town, South Africa, 05 September 2019. The World Economic Forum on Africa runs from 04 to 06 September 2019.  EPA-EFE/NIC BOTHMA
Hage Geingob, forseti Namibíu. Mynd: NIC BOTHMA - EPA
Forseti Namibíu, Hage Geingob, segist ekki ætla að grípa til ósiðaðra aðgerða vegna ásakana á hendur ráðamönnum um spillingu. Leiðtogar stjórnarandstöðuflokka hvetja kjósendur til að kjósa gegn spillingu í kosningum sem verða eftir tíu daga. Þetta kemur fram í fréttum namibísku ríkissjónvarpsstöðvarinnar NBC.

Orð forsetans voru viðbrögð við gagnrýnisröddum um að hann hefði átt að reka tvo ráðherra í ríkisstjórn sinni í stað þess að leyfa þeim að segja af sér. Bernardt Esau sjávarútvegsráðherra og Sacky Shangala dómsmálaráðherra sögðu af sér í vikunni eftir umfjöllun Kveiks, Stundarinnar og namibíska blaðsins The Namibian um greiðslur Samherja til ráðamanna í Namibíu.

Geingob forseti sagði það grunsamlegt að ásakanirnar gegn ríkisstjórn hans kæmu fram svo skömmu fyrir kosningar í landinu, sem verða eftir tíu daga.

Hópur mótmælenda krafðist þess í gær að þeir sem eru sakaðir um spillingu verði handteknir og lagt verði hald á eignir.

Samherjaskjölin hafa haft áhrif á kosningabaráttuna í Namibíu. Ignatius Shixwameni, formaður APP-flokksins, hvatti kjósendur til að fjölmenna á kjörstað 27. nóvember og hafna hinum ráðandi Swapo-flokki og forystumanni hans, Geingob forseta. Shixwameni hvatti fólk líka til að flykkjast á kjörstað til að hafna spillingu.

„Ég vil að þið fjölmennið á kjörstað til að stöðva þetta rán á auðlindum landsins sem fer fram um hábjartan dag,“ sagði Shixwameni. „Ég vil að þið fjölmennið á kjörstað og færið þjófana þangað sem þeir eiga heima. Þjófar eiga heima í fangelsi,“ bætti hann við.

Annar stjórnarandstöðuflokkur, SWANU, hefur einnig fordæmt Samherjamálið, en leiðtogi flokksins, Tangeni Ijambo, segir að það sé aðeins toppurinn á ísjakanum þegar kemur að spillingu í Namibíu.

tryggvia's picture
Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV
sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV