Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vill ekki beisla fullfrískt fólk heima

01.10.2019 - 22:17
Mynd: RÚV / RÚV
„Ef fólk vill vera lengur á vinnumarkaði, af hverju ættum við þá að banna það?“ segir félagsmálaráðherra um starfslokaaldursregluna. Hann sat fyrir svörum á borgarafundi um málefni eldri borgara í beinni útsendingu á RÚV í kvöld. Þátttakendum borgarafundarins var tíðrætt um 70 ára starfslokareglu eldri borgara.

Ásmundur Einar Daðason, félagsmálaráðherra segist vilja skoða skerðingar á kjörum eldri borgara, frítekjumarkið og 70 ára regluna. Vilt þú afnema hana? „Ég held að það þurfi að skoða. Samfélagið okkar þarf á þessu fólki að halda. Ef að fólk er fullfrískt og vill taka þátt í vinnumarkaði og vinnumarkaðurinn þarf á þessu fólki að halda - af hverju ættum við þá að vilja beisla það heima fyrir?“ spyr Ásmundur Einar og bendir á að það sé mikilvægt að hafa vinnumarkaðinn fjölbreyttan.

Guðrún Ágústsdóttir fyrrverandi formaður öldrunarráðs vill afnema lögin um 70 ára hámarksaldur. „Þau eru tímaskekkja miðað við hvað við heilsu eldri borgara,“ segir hún. „Það á að leyfa fólki að sem vill og getur halda áfram. Ekki endilega í sama starfi.“

Staða kvenna slæm

Mjög stór hópur af fátækasta hópnum eru konur. „Þær hafa margar hverjar afskaplega lélegan lífeyrissjóð. Það eru göt í þeirra starfsaldri. Þær hafa verið að hætta út af ýmsu heima fyrir - börnum, veikindum og foreldrum og öðru slíku - þeirra staða er mjög slæm,“ segir Guðrún.

Ásmundur Einar segir að taka þurfi utan um þá sem hafa verstu kjörin. „Það er á þingmálaskrá frumvarp sem innleiðir bótaflokk gagnvart þessum hópi. Við erum að leggja lokahönd á frumvarpið,“ segir Ásmundur Einar. Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður Landssambands eldri borgara benti á það fyrr á fundinum að níu þúsund eldri borgarar væru í fátækt. 

Guðrún telur ekki hægt að tengja saman öryrkja og aldraða. Hún líkir umræðunni um að öldruðum sé að fjölga við náttúruvá. „Öldruðum fjölgar og jöklarnir bráðna. Það er skrítið að umræðan sé þannig að öryrkjar og aldraðir séu til vandræða og kosta peninga,“ segir Guðrún. 

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV