Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Vill eitt sveitarfélag í Árnessýslu

Mynd með færslu
 Mynd:
Framkvæmdastjóri Árborgar telur að sameina ætti öll sveitarfélög í Árnessýslu í eitt. Samhliða sveitarstjórnarkosningum í vor ætlar bærinn að kanna hug íbúa til til sameiningar og fylgir með því fordæmi Hvergerðinga.

Í skoðanakönnuninni verða íbúar spurðir hvort þeir vilji sameinast öðrum sveitarfélögum. Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Árborgar, segir að þeir sem segist hafa áhuga verði líklega gefnir þrír valmöguleikar en þá eigi eftir að móta. 

Hvergerðingar riðu á vaðið með því að ákveða að hafa skoðanakönnun. Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri Hveragerðis, segir að niðurstöður könnunarinnar verði til ráðgjafar fyrir sveitarstjórn á næsta kjörtímabili. „Hún myndi þá vinna úr niðurstöðunni í samræmi við vilja íbúanna. Síðan þegar sú vinna er búin færi fram formleg íbúakosning,“ segir Aldís. Bæjarstjórn Hveragerðis hefur sent átta sveitarfélögum bréf um skoðanakönnunina og fjögur hafa ákveðið að fylgja fordæminu. Auk Árborgar eru það Skeiða- og Gnúpverjahreppur, Hrunamannahreppur og Flóinn. 

Ásta segist gjarnan vilja skoða að sameina Árnessýslu í eitt sveitarfélag. „Það er bara mín persónulega skoðun, ég vil bara sjá hvaða afstöðu íbúar hafa og við bara metum þetta út frá því. Árnessýsla sem sveitarfélag væri gríðarlega auðugt sveitarfélag af alls konar auðlindum og þar er margs konar þjónusta í boði. Þannig að það væri margt sem við myndum hafa út úr því og svo væri eflaust einhver hagræðing fólgin í þvi líka.“