Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Vill byggja á vinnu stjórnlagaráðs

22.01.2018 - 22:14
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, leggur til að núgildandi stjórnarskrá verði endurskoðuð í heild á þessu og næsta kjörtímabili.

Katrín kynnti í dag formönnum allra flokka á Alþingi tillögu að fyrirkomulagi stjórnarskrárvinnu á komandi kjörtímabili. Til hliðsjónar verður meðal annars vinna stjórnlaganefndar og stjórnlagaráðs, niðurstaða þjóðfundar, auk starfa stjórnarskrárnefnda árin 2005 til 2007 2013 til 2016.

Aðspurð segist Katrín telja heillavænlegast að vinnan fari fram í áföngum. „Ég átta mig á því að það er langt á milli sjónarmiða einstakra flokka í málunum, en mér finnst það vera skylda okkar að láta á það reyna að ná fram einhverjum áföngum á þessu kjörtímabili, og gera það þá í þeirri fullvissu að við séum með langtímaplan, sem nær yfir tvö kjörtímabil.“

En hvaða breytingar vill Katrín helst sjá gerðar á stjórnarskránni? „Það hefur auðvitað verið kappsmál minnar hreyfingar að ná fram góðu auðlindaákvæði í stjórnarskrá sem og ákvæði um umhverfis- og náttúruvernd, og síðan hef ég lagt á það mikla áherslu að við tryggjum aðkomu almennings betur með einhverjum hætti í stjórnarskrá í gegnum þjóðaratkvæðagreiðslur og að það sé skýr ferill,“ segir Katrín.  

alma's picture
Alma Ómarsdóttir
Fréttastofa RÚV