Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Vill breyta reglu áður en „stórslys“ verður

24.03.2019 - 19:14
Mynd með færslu
 Mynd:
Prófessor í hagfræði segir að breyta þurfi regluverki sem farið er eftir við gerð fjármálaáætlunar ríkisstjórnarinnar. Nú sé byggt á reglu sem auki sveifluna og taka þurfi í taumana áður en stórslys verði. 

Alþingismenn ræða á þriðjudag og miðvikudag fjármálaáætlun ríkissstjórnarinar sem kynnt var í gær. Fyrrverandi fjármálaráðherra sagðist í hádegisfréttum hafa áhyggjur af því að ekkert væri tekið á ófyrirséðum áföllum í áætluninni, til að mynda í flugrekstri, og að skera eigi niður ef illa fari. Það þýði að þeir sem þurfi á þjónustu ríkisins að halda þurfi að bera niðursveifluna. 

Í fjármálaáætluninni minnkar hagvöxtur um 1,1% frá því sem spáð var fyrir ári. 

„Það er nú reyndar keyrt áfram með þá bjartsýni að hagvöxtur muni aukast um 0,2 % umfram það sem á árinu 2020. Ég veit nú ekki alveg á hverju sú bjartsýni byggir. En við hagfræðingarnir, sumir að minnsta kosti, höfum haft áhyggjur af því regluverki sem er unnið eftir,“ segir Þórólfur Matthíasson prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands. 
 
Það er að hallareglan svonefnda í lögum um opinber fjármál auki frekar sveiflur í hagkerfinu en minnki þær. Þegar tekjur ríkissjóðs minnki vegna minni umsvifa í hagkerfinu þá sé brugðist við með því að minnka útgjöld hins opinbera og svo öfugt í þenslu, þá aukist tekjur ríkissjóðs, sem fari að eyða og auki þannig á þensluna. 

„Þetta skapar vandamál vegna þess að svo þarf þá Seðlabankinn, sem að starfar samkvæmt verðbólgumarkmiði, að bregðast við með því að hækka vexti óþægilega mikið og taka kannski óþægilega miklar vaxtalækkanir á öðrum tímum.“

Nú reyni á regluverkið og hallaregluna þurfi að endurnýja og leiðrétta fyrir sveiflum því markmið með fjármálastefnu hins opinbera sé að draga úr sveiflum en ekki að auka þær. 

„Og hér er búið að koma upp reglu sem að getur aukið sveifluna og það þarf að taka í taumana áður en það verða einhver stórslys þess vegna.“

Þórólfur segir að reyndar sé í fjármálaáætluninni rætt um að koma á fót þjóðarsjóði til að vinna gegn sveiflunum. 

„Það er kannski dæmi um, ég ætla ekki að kenna ríkisstjórninni um það, menn geta kannski sagt um íslensku eyðsluklóna eða hvað það er, að menn fara fyrst að huga að tryggingum þegar að tjónið hefur orðið. Að þegar við komum að því að við þyrftum kannski að nota úr svona þjóðarsjóði þá er fyrst farið að huga að því að byggja hann upp.“