Vill breyta 101 leikskóla í gistiheimili

Mynd með færslu
 Mynd:

Vill breyta 101 leikskóla í gistiheimili

16.02.2014 - 14:15
Eigandi hússins að Bræðraborgarstíg 1 - þar sem áður var 101 leikskóli - hefur óskað eftir umsögn frá skipulagsfulltrúanum í Reykjavík um hugmyndir þess efnis að breyta húsnæðinu í gistiheimili. Eigandinn ætlar að gera upp húsið að utan með hliðsjón af upprunalegri ásýnd þess.

101 leikskóla var lokað eftir að lögreglan hóf að rannsaka meint harðræði starfsmanna í garð barna sem þar voru.

Eignarhaldsfélagið HD verk ehf á Bræðraborgarstíg og vill nú breyta jarðhæðinni - þar sem leikskólinn var áður til húsa - og opna þar gistiheimili.

Í greinargerð sem lögð var fyrir umhverfis - og skipulagsráð kemur fram að margvísleg starfsemi hafi verið rekin í húsinu í sextíu til sjötíu ár, meðal annars verslun og brauðgerð. 

Fram kemur í greinargerðinni að ekki standi til að breyta jarðhæð hússins í íbúðarhúsnæði enda hafi húsið á sínum tíma verið byggt sem atvinnuhúsnæði.

Þar segir enn fremur að þessar hugmyndir hafi verið bornar undir Minjastofnun. Í óformlegu svari frá Minjastofnun kemur fram að æskilegt sé að útlit hússins verði lagfært. Þá segir einnig að húsinu hafi augljóslega verið mikið breytt í tímans rás og margt af því miður smekklegt. „Minjastofnun er því að sjálfsögðu meðmælt að útlit hússins verði lagfært með hliðsjón aðaldri þess og upphaflegri stílgerð.“

Fram kemur í fundargerð umhverfis - og skipulagsráðs að umsögn skipulagsfulltrúa um Bræðraborgarstíg hafi ekki verið lögð fram á fundi ráðsins vegna tímaskorts og því hafi málinu verið frestað fram á næsta fund.