Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vill bíða með miklar yfirlýsingar um WOW

07.09.2019 - 18:42
Mynd: RÚV / RÚV
Samgönguráðherra segir skynsamlegt að bíða með miklar yfirlýsingar um áform Michele Ballarin, sem ætlar að endurreisa WOW air og hefja áætlunarflug í næsta mánuði. Hann segir að fyrirhuguð endurreisn flugfélagsins WOW air hafi ekki verið kynnt stjórnvöldum. 

Michele Roosevelt Edwards, eða Michele Ballarin, aðaleigandi og stjórnarformaður US Aerospace Associates greindi frá því í gær að félagið hefði keypt þrotabú WOW air og hygðist hefja flug milli Bandaríkjanna og Íslands í næsta mánuði. 

„Ég er fyrst og fremst svo sem glaður yfir því að það er áhugi hjá flugfélögum heims, hvort sem þau eru ný eða í rekstri, að sýna því áhuga að fljúga til og frá Íslandi. Nú er þetta kannski meira í pípunum og ég sjálfur eða við í ráðuneytinu höfum ekki haft neinar fregnir af þessu annað en við lesum í fjölmiðlum, þannig að ég tel nú kannski skynsamlegast að bíða með miklar yfirlýsingar,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra.

Ballarin sagði í gær að til að byrja með yrði notast við tvær flugvélar, en þeim yrði smám saman fjölgað upp í allt að tólf. Hún sagði einnig að í undirbúningi væri að sækja um flugrekstrarleyfi hér á landi. Verið væri að stofna félag sem yrði að meirihluta í eigu Íslendinga vegna þess og að til stæði að ráða íslenska starfsmenn, meðal annars fyrrverandi starfsfólk WOW. Páll Ágúst Ólafsson lögmaður Ballarin sagði við fréttastofu í dag að það yrði upplýst síðar hvort íslenskir starfsmenn yrðu ráðnir á íslenskum kjarasamningum. Samgönguráðherra segir ekki hægt að vera með annað en íslenska kjarasamninga.

„Að mínu mati er svo ekki. Ef um verður að ræða íslenskt félag þá held ég að það sé nú mjög mikilvægt að þar gildi íslenskir kjarasamningar.,“ segir samgönguráðherra.