Vill bara konur í slökkviliðið

02.03.2018 - 16:04
Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
„Ég gefst ekki upp fyrr en í fulla hnefana,“ segir slökkviliðsstjórinn á Akureyri sem vill bara ráða konur til starfa við sumarafleysingar. Níu hafa þegar sótt um og verða umsóknirnar metnar til að sjá hvort þær uppfylli margvíslegar kröfur sem gerðar eru til slökkviliðsmanna.

Slökkvilið Akureyrar auglýsti nýverið eftir tveimur starfsmönnum í sumarafleysingar. Í auglýsingunni var sérstaklega óskað eftir konum, segir Ólafur Stefánsson slökkviliðsstjóri.

Hallar verulega á annað kynið

„Ástæðan er sú að það hallar verulega á annað kynið á vinnustaðnum. Samkvæmt jafnréttislögum ber stjórnanda að bregðast við því með sérstökum aðgerðum,“ segir Ólafur. 

Sumarleyfistíminn sé frá maí og til septemberloka og sumarafleysingafólk geti svo óskað eftir fastráðningu að hausti. Engin kona er starfandi hjá slökkviliðinu í fullu starfi en alls hafa fjórar konur unnið hjá slökkviliðinu í gegnum tíðina.

Og Ólafur skoðaði umsóknirnar í dag. „Það sóttu um tíu einstaklingar, þar af níu konur,“ segir Ólafur.

Núna verði farið yfir hverjir umsækjenda uppfylla grunnskilyrði. Til þess að fá starf hjá slökkviliðinu þarf að að hafa stúdents- eða iðnpróf, standast þrekpróf, sundpróf og almennt þekkingarpróf. Einnig verður viðkomandi að vera laus við lofthræðslu, innilokunarkennd og litblindu. Hann telur að unnt verði að ráða konur í störfin.

Gefst ekki upp fyrr en í fulla hnefana

„Já, ég er bara mjög bjartsýnn, annars myndum við væntanlega þurfa að framlengja auglýsinguna,“ segir Ólafur. Þú ert bara staðráðinn í að reyna að uppfylla þetta skilyrði jafnréttislaga? „Já, úr því ég er lagður af stað með þetta þá verð ég að halda því til streitu held ég. Ég vil alla vega ekki gefast upp fyrr en í fulla hnefana,“ segir Ólafur.

 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi