Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Vill auglýsa starf sveitarstjóra í Fljótsdal

Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Þó að íbúum hafi fækkað í Fljótsdalshreppi hefur ýmiskonar uppbygging átt sér stað í dalnum á undanförnum árum. Þar hefur risið Óbyggðasetur og Hengifoss er einn fjölsóttasti ferðamannastaður á Austurlandi. Við Gunnarsstofnun á Skriðuklaustri var grafið upp miðaldaklaustur með merkum gripum og margir leggja leið sína um dalinn til að skoða gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs og Kárahnjúkavirkjun. Þá hefur fyrirtækið Skógarafurðir byggt upp vinnslu á íslensku timbri á Ytri-Víðivöllum 2.

Í Fljótsdalshreppi er landbúnaður, sauðfjárrækt og skógrækt helsta atvinnugreinin auk ferðaþjónustu en hreppurinn glímir við ýmis vandamál. Eitt þeirra er að margir þeirra sem starfa í hreppnum búa annars staðar. 

Peningar ekki vandamál heldur lítil nýliðun

Um ármót voru 76 manns með skráð lögheimili í Fljótsdalshreppi en íbúum hreppsins hefur fækkað um 24% á 20 árum. Íbúum „fjölgaði“ gríðarlega á árunum 2004-2007 vegna erlendra farandverkamanna sem unnu við gerð Kárahnjúkavirkjunar. Árið 2007 voru 526 skráðir þar með lögheimili. Virkjunin tók til starfa og hefur Fljótsdalshreppur talsverðar tekjur af stöðvarhúsinu. Hreppurinn stendur því vel fjárhagslega og hefur geta lagt ljósleiðara og þriggja fasa rafmagn, malbikað helstu vegi og styrkt íbúana til framkvæmda sem fegra bæjarstæði og byggingar.

Svokölluð óhlutbundin kosning er í Fljótsdalshreppi sem þýðir að allir íbúar eru í kjöri en þeir geta skorast undan fyrir fram sem hafa setið eitt kjörtímabil eða lengur. Sveitarstjórn skipa nú, Gunnþórunn Ingólfsdóttir oddviti, Þorvarður Ingimarsson, Lárus Heiðarsson, Anna Jóna Árnmarsdóttir og Eiríkur J. Kjerúlf.

Aðeins um helmingur „íbúa“ er í dalnum

Þorvarður hefur setið í 20 ár og skorast nú undan. Hann hefur áhyggjur af fólksfækkun og lítilli nýliðum í hópi sauðfjárbænda í sveitinni. Nokkuð sé um að börn íbúa sem ekki eru komin með fasta búsetu séu enn skráð með lögheimili í hreppnum. Aðeins um helmingur af skráðum íbúum búi í Fljótsdal í raun. „Eitthvað þarf að gera til að snúa þróuninni við. Það væri ekki verra að fá einhverja yngri inn í stjórnun sveitarfélagsins,“ segir Þorvarður og telur að til dæmis mætti gera það með því að auglýsa eftir sveitarstjóra. Allir séu sammala um að eitthvað nýtt þurfi að koma til. Fljótsdalshreppur sótti um að taka þátt í verkefni Byggðastofnunar brothættar byggðir en var synjað meðal annars á þeirri forsendu að hreppurinn stæði vel fjárhagslega.

Til í að halda áfram til 67 ára aldurs

Gunnþórunn Ingólfsdóttir oddviti hefur gegnt starfi sveitarstjóra um langt skeið en hún verður 67 ára á næsta kjörtímabili. Gunnþórunn segir að oddviti hafi starfað sem sveitarstjóri síðan 1998 en hún hafi tekið við starfinu 2001. Hún hafi ekki sagt sig frá því að sitja í sveitarstjórn núna og koma verði í ljós hvernig þeir sem taka sæti í sveitarstjórn sjá fyrir sér að störfum sé best fyrir komið. Hún segir að hún myndi ekki neita því að starfa áfram sem sveitarstjóri en ólíklegt yrði að hún myndi vilja starfa fram yfir 67 ára aldurinn.

Vinnustaðir í dalnum mannaðir fólki sem býr í burtu

Á þessu kjörtímabili lagðist af búskapur á kirkjujörðinni Valþjófsstað 1. Kirkjumálasjóður seldi greiðslumark sem fylgdi jörðinni og leigði hana út. Hreppurinn vildi að jörðin yrði leigð út sem bújörð. Þá lagðist einnig af búskapur á Hjarðarbóli en Þorvarður segir að jörðin bjóði upp í ýmsa möguleika vegna nálægðar við Hengifoss. Hann segir að það sé dapurleg staðreynd að nær allir sem starfi hjá Gunnarsstofnun og í Fljótdalsstöð og allir sem starfi í gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs búi annars staðar en í hreppnum.

Vilja „halda í aurinn“

Fljótsdælingar sækja þjónustu til Egilsstaða sem er í öðru sveitarfélagi, Fljótsdalshéraði. Vilji til sameiningar 6 sveitarfélaga á Austurlandi var kannaður nýverið og var andstaða við sameiningu mest í Fljótsdalshreppi, 67% svarenda þar vildu enga sameiningu. „Menn vilja nú halda í aurinn. Sveitarfélagið á peninga og það vill nýta þá til uppbyggingar,“ segir Þorvarður. Hann telur að stærsta áskorun þeirra sem taka við á næsta kjörtímabili sé að stuðla að nýliðun og fjölgun íbúa og finna leiðir til að nýta fjármagn sveitarfélagsins til þess.