Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Vill afnema 25 ára regluna um framhaldsskóla

22.03.2018 - 06:47
Mynd með færslu
 Mynd: Framsókn
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, vill afnema hina svokölluðu 25 ára reglu, sem færir fólk 25 ára og eldra næst-aftast í forgangsröð umsækjenda um framhaldsskólanám. Þetta kemur fram í aðsendri grein ráðherrans, sem birtist í Fréttablaðinu í dag. Þar segir Lilja að þegar reglan var sett, árið 2012, hafi margir túlkað hana sem svo „að framhaldsskólar landsins [væru] lokaðir fólki eldra en 25 ára sem hefur áhuga á bóknámi.“

Þótt ráðuneytinu hafi „ekki borist umkvartanir vegna synjunar um skólavist sökum aldurs og líkur á að það reyni á slíkt [séu] hverfandi,“ segir ráðherra, þá sé það hennar skoðun að einfalda eigi regluverk, og afnám 25 ára reglunnar sé skref í þá átt.

Nemendum yfir 25 ára aldri fækkaði mjög í framhaldsskólum landsins eftir að reglan var innleidd í menntamálaráðherratíð Illuga Gunnarssonar árið 2014. Var öldungadeild Menntaskólans við Hamrahlíð lögð niður í lok þess sama árs. Í pistli rektors um lokun deildarinnar kom fram að ástæðan væri þverrandi aðsókn og ákvörðun stjórnvalda um að hætta að veita framhaldsskólum fé til menntunar þeirra sem eru 25 ára og eldri.

Í umræðum um málið á þinginu um þetta leyti á síðasta ári benti Katrín Jakobsdóttir, núverandi forsætisráðherra, á að af fyrirliggjandi gögnum mætti ráða að framhaldsskólanemendum yfir 25 ára aldri hefði fækkað um 742 milli áranna 2014 og 2015, og það væri bein afleiðing pólitískrar ákvörðunar fyrri ríkisstjórnar, þar sem Illugi var menntamálaráðherra. 

Grein Lilju í Fréttablaðinu má lesa með því að smella hér.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV