Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Vill aflétta hreðjataki stórfyrirtækja á bæjarfélögum

16.11.2019 - 12:22
Mynd með færslu
Drífa Snædal, forseti ASÍ. Mynd: Aðsend mynd
Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands, segir að Samherjaskjölin sýni að draga þurfi úr völdum stórfyrirtækja. Forstöðumaður hjá Samtökum atvinnulífsins segir ekkert vinnast með því að fella dóma í málinu fyrr en yfirvöld hafa rannsakað það.

Drífa segir að mjög margir eigi allt sitt undir stórfyrirtækjum á Íslandi, Samherja og öðrum. Það sé fyrirsjáanlegt að fólkið í nærsamfélaginu hiki við að gagnrýna viðskiptahætti Samherja.

„Það þarf að vinda ofan af þessu hreðjataki sem að stórfyrirtæki hafa, á það hvort að ákveðnar byggðir lifa og, lifa eða deyja, og bara lífsgæðum fólks í nærumhverfinu og völdum og áhrifum,“ segir Drífa.

Samtök atvinnulífsins sendu í gærkvöld frá sér yfirlýsingu vegna Samherjamálsins, þar sem segir að samtökin séu slegin yfir fréttum af viðskiptum Samherja í Afríku. Málið þurfi að rannsaka og Samherji þurfi að leggja spil sín á borðið gagnvart yfirvöldum. Davíð Þorláksson, forstöðumaður samkeppnishæfnissviðs SA, segist sjálfur sleginn.

„Þetta er gríðarlega alvarlegt,“ segir Davíð. „Ég bara tek algjörlega undir það.“ Hann segir þó að málið batni ekkert þó að dómar séu felldir strax. Það sem málið þurif á að halda sé gaumgæfileg rannsókn þar til bærra yfirvalda. Hann segir að stjórnmálamenn ættu til dæmis kannski að hafa sig til hlés á meðan að rannsókn fer fram.

tryggvia's picture
Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV