Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Vill að þjóðin eigi alltaf síðasta orðið

Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur lýsti í dag yfir forsetaframboði. Hann segir að forseti eigi að vera sameiningartákn og ætlar að tryggja að þjóðin eigi alltaf síðasta orðið.

Framboð Guðna hefur legið í loftinu síðustu vikur. Hann boðaði til fundar í Salnum í Kópavogi í dag þar sem kynnti framboðið formlega. 

Guðni leggur áherslu á að forseti eigi að sameina frekar en sundra. „Ég stend fyrir það sjónarmið að forseti Íslands eigi að vera sameiningartákn þjóðarinnar. Það þýðir alls ekki að hann eigi að vera viljalaust verkfæri valdhafa í stjórnarráðinu og þingi hverju sinni en forseti á að reyna að sameina frekar en að sundra. Hann á að vera forseti allra Íslendinga, fólkið í landinu á ekki að fá á tilfinningu að hann sé í liði með einum frekar en öðrum og nái ég kjöri er þetta mín megin stefna í embættið.“

Guðni segist ætla að beita sér fyrir því að í stjórnarskrá verði ákvæði þess efnis að tilskilinn hluti kjósenda geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu. Forseti þurfi að tryggja að þjóðin eigi alltaf síðasta orðið. „Forseti hlýtur að láta sig varða endurskoðun stjórnarskrár. Í hana þarf að koma það ákvæði að tilskilinn hluti kjósenda geti krafist þjóðaratkvæðis um umdeild mál. Beint lýðræði á ekki að felast í því að við þurfum að arka til Bessastaða með bænaskrá í annarri og blys í hinni og biðja um að fá að kjósa um það sem okkur varðar.“ 

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV