Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Vill að þingið fjalli um ofbeldisrannsókn

18.10.2019 - 08:40
Mynd: RÚV - Þór Ægisson / RÚV
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að fjallað verði á þingi um rannsókn á kynbundnu ofbeldi sem þingkonur mæta. 20 af 25 stjórnmálakonum sögðust í nýrri rannsókn hafa orðið fyrir sálfræðilegu ofbeldi.

Um 80 prósent íslenskra þingkvenna verða fyrir kynbundnu, andlegu ofbeldi og 28 prósent þeirra hafa sætt kynferðislegu ofbeldi. Þetta er á meðal niðurstaðna rannsóknar sem gerð var meðal sitjandi þingkvenna og kvenna sem nýlega hafa látið af þingmennsku. Fréttablaðið greinir frá þessu.

Fjallað er um rannsóknina og niðurstöður hennar í nýrri bók eftir Hauk Arnþórsson, sem kemur út í dag. Rannsóknin var lögð fyrir 33 þáverandi og fyrrverandi þingkonur í maí og bárust svör frá 25 þeirra. Katrín Jakobsdóttir var gestur Morgunvaktarinnar á rás 1 í morgun. Hún væntir þess að málið verði tekið fyrir á þingi. 

„Þetta er alveg ótrúlega hátt hlutfall sem hér er nefnt og ég vænti þess að þetta verði nú tekið til umræðu á vettvangi þingsins. Samkvæmt fréttinni er þetta töluvert hærra hér en annars staðar í Evrópu, en svo má spyrja sig, það virðist vera að við séum með þá tilhneigingu, sem er líka að einhverju leyti jákvæð, að við tölum meira um hlutina en víða annars staðar.“

Hún telur að margir hafi fengið áfall eftir Metoo-byltinguna og áttað sig á hve víða bæði kynbundið og kynferðislegt ofbeldi og áreitni er og leynist í samfélaginu. 

„Við höfum nú verið að skora efst þegar kemur að kynjajafnréttismálum í heiminum en ég held að margir hafi orðið fyrir hálfgerðu áfalli að upplifa þessa ofbeldismenningu sem er tengd kynjakerfinu í okkar samfélagi. En það kannski góða við þetta er að ég held að við séum farin að tala miklu meira og opinskárra um það,“ sagði Katrín Jakobsdóttir í Morgunvaktinni á Rás eitt í morgun. 

 

solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV