Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Vill að skattkerfið verði endurskoðað

08.01.2018 - 19:51
Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
ASÍ telur að skattabreytingar sem urðu um áramótin komi sér betur fyrir hátekju- en lágtekjufólk. Formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis tekur að hluta undir gagnrýnina, og segir að það sé kominn tími til að endurskoða tekjuskattkerfið.

Um áramótin hækkaði persónuafsláttur til samræmis við hækkun á verðlagi undanfarið ár, um leið og efri tekjumörk hækkuðu til samræmis við launavísitölu, líkt og lög gera ráð fyrir.  „Og við gefur okkur að jafnaði að hér sé kaupmáttaraukning þannig að laun séu þá að hækka meira en verðlag. Og þetta veldur þá misræmi í þróun á skattbyrði eftir því hvaða tekjur fólk hefur,“ segir Henný Hinz, deildarstjóri hagdeildar ASÍ.

ASÍ tekur dæmi um manneskju með 350.000 krónur í mánaðarlaun. Samkvæmt útreikningum sambandsins greiddi viðkomandi rúmar 71 þúsund krónur í tekjuskatt á mánuði í fyrra, en á þessu ári er tekjuskatturinn rúmar 70 þúsund krónur á mánuði. Samkvæmt þessu aukast ráðstöfunartekjurnar um 11.800 krónur á ári. Sá sem er með milljón á mánuði greiddi rúmar 313 þúsund krónur á mánuði í fyrra, en mun á þessu ári greiða rúmar 306 þúsund krónur. Ráðstöfunartekjurnar aukast um tæplega 78 þúsund krónur á ári, eða sexfalt meira en hjá þeim sem hefur lægri tekjurnar.

„Þá er þetta ein af þeim skýringum sem veldur því að skattbyrði lægri tekna hefur aukist umtalsvert meira en hærri tekna á síðustu árum,“ segir Henný.

„Gengur ekki upp“

Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, segir að breytingarnar séu samkvæmt lögum sem hafa verið í gildi lengi.

„Það er auðvitað verið að hækka viðmiðunarfjárhæð þannig að þeir sem hafa notið hækkunar launa á seinasta ári, í samræmi við launavísitölu, það er verið að koma í veg fyrir að þetta fólk færist úr neðra þrepi yfir í efra þrep. Og ég trúi því ekki að ASÍ sé að mælast til þess að þetta fólk færist úr neðra þrep yfir í efra eingöngu vegna þess að það hækkaði í launum um 7%. Það gengur ekki upp.“

Þá bendir Óli Björn á að barnabætur hafi hækkað um áramótin. Hins vegar sé það réttmæt ábending hjá ASÍ að persónuafsláttur vegi þyngra hjá þeim sem hafa lægri tekjur. Tími sé kominn til þess að endurskoða tekjuskattkerfið.

„Ég hef sjálfur ákveðnar hugmyndir. Ég hef lengi talað fyrir því að við eigum að innleiða og taka upp eitt þrep tekjuskatts. Og síðan getum við verið með persónuafslátt sem fari þá hugsanlega stiglækkandi eftir tekjum,“ segir Óli Björn.

Henný er sammála því að gera þurfi breytingar á skattkerfinu.

„Við höfum talið að það sé full ástæða til að fara yfir þessa þætti í skattkerfinu og gera lagfæringar á,“ segir hún.

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV