Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Vill að pólitíski viljinn sé skýr

23.08.2013 - 12:37
Mynd með færslu
 Mynd:
Þeir þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem fréttastofa hefur rætt við í morgun telja flestir eðlilegt að Alþingi taki ákvörðun um framhald viðræðna við Evrópusambandið. Brynjar Níelsson, er einn þeirra.

„Réttast og eðlilegast væri ef menn vilja hætta þessum viðræðum að þingið álykti um það, ég hef sagt það áður. En á sama tíma segi ég líka að ráðherra getur ákveðið að gera þetta með þessum hætti. Hann stendur lögfræðilega traustum fótum í því. En þetta snýst ekki alltaf um lögfræði heldur líka hvað er skynsamlegt og eðlilegt að gera í málum sem þessum,“ segir Brynjar.

Aðspurður hvers vegna hann vilji frekar að ráðherrann fari með málið fyrir þingið svarar Brynjar: „Svo að það sé skýr pólitískur vilji um það. Þetta er stórt pólitískt mál og það eru búnar að vera viðræður árum saman á grundvelli þingsályktunartillögu. Þess vegna er miklu eðlilegra í mínum huga að fara þá leið að ákveða það með þingmeirihluta að hætta þessu.“