Vill að meirihlutinn fái að ráða í loftslagsmálum

17.12.2019 - 17:40
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, auðlinda- og umhverfisráðherra. - Mynd: RÚV / RÚV
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra, segir óásættanlegt að ríki heims geti ekki komist að niðurstöðu í jafn mikilvægum málum og loftslagsmálum. Hann er fylgjandi því að fyrirkomulagi viðræðna á loftslagsráðstefnum Sameinuðu þjóðanna verði breytt þannig að meirihluti ríkja geti tekið ákvarðanir, einstök ríki geti þá ekki staðið í vegi fyrir öðrum.

Varð fyrir vonbrigðum

Viðræður á ráðstefnunum miða að því að ná samstöðu, öll ríki þurfa að vera samþykk þeim ákvörðunum sem eru teknar - kosturinn við það er sá að allir eru með, gallinn sá að það getur leitt til útvatnaðra niðurstaðna, eins konar lægsta samnefnara. Guðmundur Ingi segir niðurstöðu ráðstefnunnar í Madríd, sem lauk á sunnudag, vonbrigði, þó eitthvað hafi miðað. „Maður skynjar svolítið að það skorti á það að ákveðin ríki, sérstaklega þau sem hafa áður látið sig þessi mál miklu meira varða eins og Bandaríkin, Brasilía og fleiri taki meiri forystu. Ég held við getum ekki búist við því eins og stjórnmálaástandið er og þau skilaboð sem leiðtogar þeirra senda inn á þessa fundi. Þá reynir meira á önnur ríki, eins og ríki Evrópusambandsins. Ég held að þetta sé ein af ástæðunum fyrir því að við séum ekki að ná þeim árangri sem við þurfum að ná,“ segir Guðmundur Ingi.

Sjá einnig: 

epa08072397 Chilean Environment Minister and President of COP25, Carolina Schmidt, delivers a speech during the final plenary session of the COP25 UN Climate Change Conference at IFEMA Convention and Exhibition Center in Madrid, Spain, 14 December 2019. The UN Climate Change Conference COP25 runs from 02 to 14 December 2019 in the Spanish capital.  EPA-EFE/FERNANDO VILLAR
Carolina Schmidt, umhverfisráðherra Chile og ráðstefnustjóri á 25. loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, ávarpar þingheim  Mynd: EPA-EFE - EFE
Carolina Schmidt, umhverfisráðherra Chile og forseti ráðstefnunnar í Madrid, flytur lokaávarp.

Spyr sig hversu skilvirkt kerfið sé

Guðmundur veltir vöngum yfir því hvort það færi betur á því að hafa viðræðurnar öðruvísi. „Staðan vekur upp spurningar um hversu skilvirkt þetta kerfi okkar er, þetta kerfi alþjóðasamninga. Þetta er ekki eini samningurinn á sviði umhverfismála þar sem þarf að ná samþykki allra til þess að ákvarðanir nái í gegn og það hefur verið umræða á alþjóðavettvangi og í fræðunum um það hvort það eigi að breyta þessum samningum með þeim hætti að það þurfi til dæmis einungis merihluta eða aukinn meirihluta, tvo þriðju hluta ríkja, til þess að geta komið ákvörðunum í gegn. Persónulega er ég að mörgu leyti fylgjandi því að skoða slíkt í framtíðinni eða sem fyrst en ég held það sé ekki mikill stuðningur við það af því allt snýst þetta líka um sjálfsákvörðunarrétt þjóðanna og ríkjanna um hvaða ákvarðanir eru teknar og hvaða áhrif það hefur á þær en þegar maður er að horfa á jafn stór og alvarleg mál og loftslagsbreytingar þá er það óásættanleg útkoma að við getum ekki náð niðurstöðu í málum eins og þessum.“ 

Ár öfga í veðurfari

Í ár hefur rignt yfir okkur fréttum af öfgum í veðurfari, í veðurannál ársins ratar fellibylurinn Dorian sem lagði Bahama-eyjar nánast í rúst, fordæmalaus hitabylgja í Evrópu, eldarnir sem loguðu í Amazon-frumskóginum, Ástralíu, Kongó og Síberíu, hröð bráðnun Grænlandsjökuls.

Volunteers wade through a road flooded by Hurricane Dorian as they work to rescue residents near the Causarina bridge in Freeport, Grand Bahama, Bahamas, Tuesday, Sept. 3, 2019. The storm’s punishing winds and muddy brown floodwaters devastated thousands of homes, crippled hospitals and trapped people in attics. (AP Photo/Ramon Espinosa)
 Mynd: AP
Fellibylurinn Dorian er versta óveður sem gengið hefur yfir Bahama-eyjar í manna minnum.

Þróunin virðist um margt hraðari en vísindamenn bjuggust við. Mótmælahreyfingar hafa verið áberandi og Oxford-orðabókin valdi orðasambandið Neyðarástand í loftslagsmálum orð ársins. Antonio Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, sagði alþjóðasamfélagið hafa glatað mikilvægu tækifæri.

Rof 

Það tala margir um rof á milli viðræðnanna í Madríd og þess sem vísindin segja okkur. Niðurstaðan loftslagsráðstefnunnar var útvatnaðri en margir hefðu viljað, en fól þó í sér að ríki skyldu skerpa á markmiðum sínum fyrir næsta ár og reyna að loka bilinu á milli þeirra markmiða sem ríki settu sér í tengslum við Parísarsamkomulagið, og þess samdráttar sem raunverulega er þörf á til að halda hlýnun vel innan við tvær gráður. Erfiðustu málin eru óleyst. Ekki tókst að samþykkja regluverk um kolefnismarkaði, heldur ekki um bókhald og skýrslugjöf, og ríki komu sér ekki saman um hvernig skyldi fjármagna aðgerðir í þróunarlöndunum og aðstoða þau við að takast á við afleiðingar loftslagsbreytinga. Þeir sem berjast fyrir því að regluverkið um viðskiptakerfið verði strangt og engar glufur að finna eru ánægðir með að vinnu við þetta hafi verið frestað, það sé betra að fresta en að semja um losaralegt reglurverk.

Verða ríkin frekar í samningshug á næsta ári? 

Það steitti á nákvæmlega sömu málum á ráðstefnunni í Katowice í Póllandi í fyrra, þá var ákveðið að fresta því að greiða úr þeim til ráðstefnunnar í ár, nú er aftur búið að fresta þeim. Telur Guðmundur Ingi líklegt að ríki heims verði í meiri samningahug í Glasgow á næsta ári. Að þá verði auðveldara að greiða úr flækjunum?„Það þokaðist eitthvað nær samkomulagi eins og varðandi markaðainn fyrir losunarheimildir þannig að það er ekki annað hægt en að vonast til þess að ríki heims nái niðurstöðu næst. Það er mjög mikilvægt því Parísarsamkomulagið tekur gildi að næsta ári liðnu, árið 2021. Þá er mjög mikilvægt að allar reglur séu til staðar og skýrt með hvaða hætti er gerð grein fyrir árangri ríkja, að það sé ekki verið að tvítelja árangur og svo framvegis. Það er bara á ábyrgð allra ríkja heims að ná þessari niðurstöðu.“ 

Reiptog

Það má kannski líkja viðræðunum við reiptog. Kína, Indland, Brasilía, Bandaríkin og Ástralía héldu ásamt fleirum um annan enda reipisins. Þau stóðu í ár vörð um eigin hagsmuni og börðust fyrir undanþágum og almennu, orðalagi. Ástralía og Brasilía sóttu fast að fá að nota losunarheimildir frá Kyoto-tímanum sér til framdráttar í nýju viðskiptakerfi og vildu ekki setja reglur til að koma í veg fyrir tvítalningu heimilda. Indland lagði þunga áherslu á mikilvægi þess að kanna hvort vestræn ríki hefðu staðið sína pligt á Kyoto-tímabilinu sem rennur sitt skeið um áramótin og Brasilía og Kína voru mótfallin því að skylda ríki til að skerpa á markmiðum sínum fyrir næsta ár, sögðu að þá yrðu vestræn ríki líka að skuldbinda sig til að tryggja þróunarríkjum fjármagn til að takast á við afleiðingar loftslagsvandans, eins og til stóð. Í hinn endann á reipinu toguðu fulltrúar smárra eyríkja, sem eru sum að sökkva í sæ, auk Evrópusambandsins og ríkja í Afríku og Suður-Ameríku. Þau gerðu kröfu um að ríki settu sér stærri markmið fyrir viðræðurnar í Glasgow á næsta ári. Sögðu brýnt að bregðast við af krafti. 

Telur Vesturlönd mega styðja betur við þróunarríki

Guðmundur segir kröfu þróunarlandanna um að vesturlönd taki meira á sig skiljanlega en að það sé mikilvægt að sum þessara ríkja, til dæmis Kína, sem losar mest allra, leggi sitt af mörkum. Það sama gildi um Indland. „Ég held að það sé mjög mikilvægt að iðnríkin styðji við bakið á þróunarríkjum við að koma á tækni sem er umhverfisvænni og það eru sveigjanleika ákvæði sem hafa verið alla tíð í samningnum um loftslagsmál sem gefa færi á því að veita fjármagni inn í slíkt eða veita tæknilega aðstoð. Þetta hefur alltaf verið bitbein, það náðist þó árangur í París, talað um að tryggja stóraukið fjármagn til þróunarríkjanna hvað þetta varðar og unnið að því síðan. Það sem gildir þarna er í raun að betur má ef duga skal. Auðvitað þarf að sýna skilning á þessum sjónarmiðum og mjög mikilvægt að mínu mati að iðnríkin komi meira til móts við þróunarríki og aðstoði við fjármögnun, sérstaklega í þeim ríkjum sem eiga erfiðast með það sjálf.“ 

Hefði getað farið verr

Þeir sem voru vongóðir fyrir ráðstefnuna urðu í Madríd fyrir vonbrigðum en segja þó að það hefði getað farið verr. Síðustu daga ráðstefnunnar, þegar spennan var í hámarki, var lagt til að allar klausur um að skerpa á markmiðum fyrir árið 2020 yrðu teknar út úr lokayfirlýsingu ráðstefnunnar og einungis talað um að ríki þyrftu að gera grein fyrir markmiðum sínum. Smá eyríki með Marshall-eyjar í fararbroddi og nokkur Evrópuríki tóku þetta ekki í mál, og fengu það í gegn að í lokayfirlýsingunni var því talað um bráða þörf á því að brúa bilið milli þeirra markmiða sem ríki settu sér í tengslum við Parísarsamkomulagið, og þess samdráttar sem raunverulega er þörf á til að halda hlýnun vel innan við tvær gráður. Þá er kveðið á um að á næsta ári kynni hvert ríki markmið sem gangi lengra en markmiðin sem það setti árið 2015 og að þau verði eins metnaðarfull og ríkinu er framast unnt. 

Ísland fylgi Evrópusambandinu

Á meðan á ráðstefnunni stóð samþykkti Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins að ná kolefnishlutleysi fyrir árið 2050 og verja til þess milljónum Evra. Og þó það hafi gerst í Brussel vakti sammþykktin von mitt í þjarkinu í Madríd. Evrópusambandið hyggst líka skerpa á markmiðum sínum fyrir árið 2030. Nú stefnir sambandið á að ná 40% samdrætti í losun, miðað við losunina árið 1990 en hugsanlega verður markið fært í 50% eða 55%. Hvað þýðir það fyrir Ísland sem á aðild að markmiði Evrópusambandsins? Í heild ætlar sambandið að minnka losun um 40% miðað við árið 1990 og það fól Íslandi að minnka losunina um 29%, taldi það sanngjarnt í ljósi þess árangur sem þegar hefur náðst hér, til dæmis með hitaveituvæðingu. Á mannamáli felur 29% markmiðið í sér að við þurfum að skera útblásturinn niður um helming frá því sem nú er. Stjórnvöld stefna þó að því að ná 40% samdrætti, miðaði við 1990 en þau eru ekki skuldbundin til þess. Spurningin er, ef ESB bætir í á næsta ári og setur markið við 50% eða 55%, eins og hefur verið rætt, þurfum við þá líka að bæta í? Umhverfisráðherra vill fylgja Evrópusambandinu. „ESB er það ríkjasamband sem hefur sett sér einna metnaðarfyllstu markmiðin, ef Evrópusambandið hækkar, segjum upp í 55% finnst mér sjálfgefið að Ísland hljóti að hækka líka.“ Ísland myndi þá kannski hækka í 39 eða 44, hver veit? 

Pressan á Bretlandi og ESB

Það hvílir mikil pressa á Bretum sem eiga að stýra ráðstefnunni á næsta ári. Jennifer Tollman, loftslagssérfræðingur hjá hugveitunni E3G segir að bresk stjórnvöld þurfi að vinna traust Kína og Indlands, fullvissa þau um að allir hyggist róa í sömu átt og að önnur ríki muni styðja við þau.

Það skiptir líka miklu máli hvað kemur út úr viðræðum Kína og Evrópusambandsnis. Boðað hefur verið til leiðtogafundar Kína og Evrópusambandsins í Leipzig í Þýskalandi í september á næsta ári. Bandaríkin, sem á þeim tíma voru leiðandi,  og Kína funduðu í aðdraganda ráðstefnunnar í París 2015 og undirrituðu sáttmála sem varð einn af hornsteinum samkomulagsins. Því eru vonir bundnar við fundinn í Leipzig. 

epaselect epa08064553 Britain's Prime Minster Boris Johnson leaves the polling station after casting his vote with his dog Dylan, during the general election in London, Britain, 12 December 2019. Britons go to the polls on 12 December 2019 in a general election to vote for a new parliament.  EPA-EFE/VICKIE FLORES
 Mynd: EPA
Pressan hvílir á Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands.
arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi