Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Vill að lögreglan rannsaki verkstjóra

Mynd með færslu
 Mynd:
Formaður verkalýðsfélags Bolungarvíkur vill að lögreglan rannsaki mál Pólverja sem segja að þeir hafi þurft að greiða verkstjóra hjá fiskvinnslufyrirtæki í bænum til að fá vinnu. Hann telur að fólk sé hrætt og því sé hótað.

Lögreglunni á Vestfjörðum hefur borist bréf þar sem pólskur verkstjóri hjá fiskvinnslufyrirtæki í Bolungarvík er sagður taka eitt þúsund evrur, andvirði um 165 þúsund íslenskra króna, af löndum sínum, sem hann hefur milligöngu um að útvega vinnu.

Lögreglan á Vestfjörðum segir að engar kærur hafi borist og ekki sé hafin rannsókn á málinu. Lárus Benediktsson, formaður Verkalýðs-og sjómannafélags Bolungarvíkur, segir að málið hafi ekki komið inn á borð félagsins. Hann telur að fólk sé hrætt. „, Ég held bara hreint og beint að þeim sé hótað einhverju þegar þeir eru ráðnir til vinnu - ég kann ekki aðra skýringu á því að þeir skuli ekki leita til síns stéttarfélags.“

Lárus segir að svona eigi ekki viðgangast, stéttarfélög og atvinnurekendur eigi að upplýsa starfsfólk sitt um þetta og koma í veg að svona geti gerst. „Ef þetta reynist rétt, að þetta sé svona hér, þá er þetta bara hörmung. Það þarf að uppræta þetta. Enda hvet ég þessa Pólverja sem sendu bréfið að halda áfram með málið og kæra það, þá fer þetta í rannsókn og þá kemur í ljós hvað er rétt í þessu.“