Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vill að hlustað verði á raddir frumbyggja

29.01.2020 - 06:19
epa03895405 A photograph made available on 04 October 2013 shows the river Tiputini as it passes by the northern border of Yasuni National Park in Ecuador, 16 May 2007. The Ecuadoran Congress approved on 03 October 2013 new drilling for oil development
 Mynd: EPA - EFE
Fulltrúi frumbyggjaþjóða við Amazonfljót telur að tengsl þeirra við náttúruna geti komið í veg fyrir eyðileggingu lífkerfa í regnskóginum. Hann segir að náttúruhamfarir á borð við skógareldana í fyrra eigi eftir að halda áfram að fara vaxandi ef mannréttindi og kunnátta innfæddra verður virt að vettugi.

Tuntiak Katan er varaformaður samtaka frumbyggjaþjóða við Amazonfljót. Sjálfur er hann úr Shuarþjóðinni í Ekvador. Hann segir stjórnvöld í álfunni eyða milljónum dollara til þess að fá aðstoð umhverfisfræðinga í baráttunni við loftslagsbreytingar og afleiðingar þeirra. Á sama tíma leita þau ekki til frumbyggjaþjóða, sem hafa lifað í sátt og samlyndi við náttúruna í margar aldir. 

Meira kolefni bundið hjá frumbyggjum

Hugmyndir Katans um að leita ætti til frumbyggja eftir sérfræðiþekkingu eru ekki úr lausu lofti gripnar. Samkvæmt nýrri rannsókn draga þau svæði Amazon regnskógarins sem eru í umsjá frumbyggjaþjóða til sín meira af kolefnum en önnur svæði. „Ef ekki verður fylgt eftir tillögum, þekkingu og stjórnarháttum frumbyggja eiga eftir að verða fleiri hamfarir," hefur Guardian eftir Katan. það þýði áframhaldandi umfangsmiklir skógareldar og skógarhögg.

Fyrr í mánuðinum birtu Sameinuðu þjóðirnar drög að náttúrusamningi. Þar er kallað eftir því að ríki heims sameinist um að vernda að minnsta kosti 30% jarðarinnar, minnka mengun verulega og fylgja hugmyndum frumbyggjaþjóða heims. 

Vandamálið er víða

Katan segist eiga í góðu samstarfi við frumbyggjaþjóðir í öðrum heimsálfum. Til að mynda í Indónesíu, þar sem hann segir svipað vandamál blasa við og í Amazon. Þar hafi frumbyggjar mikla þekkingu á stjórnun skóglendisins, en réttindi þeirra séu ekki virt og skógarnir höggnir með tilheyrandi tjóni á náttúrunni.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV