Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Viljum ekki fyrsta sæti á mengunarlista

07.11.2018 - 12:16
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Íslendingar menga mest allra í Evrópu og hefur losun koltvísýrings á einstakling aukist vegna aukins flugreksturs og skipaflutninga frá árinu 2012. Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra segir að um stærstu áskorun 21. aldarinnar sé að ræða, sem taka þurfi gríðarlega alvarlega. Þetta sé ekki sá staður þar sem Ísland vilji vera í fyrsta sæti.

Upplýsingar um koltvísýringslosun koma fram á vef Hagstofu Íslands, þar sem Ísland var með mesta losun koltvísýrings á einstakling frá nokkru hagkerfi innan ESB og EFTA-svæðisins árið 2016. Ísland hefur verið í þriðja til fjórða sæti frá árinu 2008 en vermir nú toppsætið. Önnur lönd sem hafa verið með háa losun eru Lúxemborg, Danmörk og Eistland. Almennt hefur losun á einstakling hins vegar lækkað innan ESB.

„Þetta er ekki sá staður sem við viljum vera í fyrsta sæti á, það er alveg ljóst. Það er hins vegar náttúrulega þannig þegar litið er á hversu fá við erum, og þarna eru inni flug og stóriðja, þá náttúrulega telur það mjög mikið þegar skoðað er á hvern einstakling. Það breytir því ekki að við þurfum að taka þessi mál gríðarlega alvarlega líkt og ríkisstjórnin hefur gert með því að setja út aðgerðaáætlun í loftslagsmálum,“ segir Guðmundur Ingi. „Við þurfum öll sem eitt, bæði fyrirtækin í landinu og við íbúarnir og stjórnvöld, að takast á við þetta því að þetta er raunveruleg áskorun og stærsta áskorun 21. aldarinnar.“