Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Viljum að verkinu sé lokið“

25.01.2019 - 10:23
Mynd:  / 
Vestmannaeyingar fagna á því á þessu ári að öld er liðin frá því bærinn þeirra fékk kaupstaðarréttindi. Margt verður gert til hátíðarbrigða af því tilefni. Það er bjart yfir Vestmannaeyjum og möguleikar miklir til atvinnusköpunar og framfara, eins og fram kom í viðtali við Írisi Róbertsdóttur, bæjarstjóra í Vestmannaeyjum, á Morgunvaktinni á Rás 1. Hún viðurkenndi jafnframt að enn væri ekki gróið um heilt eftir harðvítug átök í Sjálfstæðisflokknum og klofningsframboð hennar fólks.

Það var farið vítt um völl í spjallinu á Morgunvaktinni. Íris Róbertsdóttir lýsti helstu hagsmunamálum Vestmannaeyinga, fyrst og síðast að tryggðar verði samfelldari og betri samgöngur milli lands og Eyja. Hún segir að Landeyjahöfn hafi verið fagnað en augljóslega þurfi að gera úrbætur á henni og finna aðrar leiðir en að dæla stöðugt sandi úr höfninni: „Við viljum bara að verkinu sé lokið.“ Bæjarstjórinn fór á fund samgöngunefndar Alþingis í nóvember og bað um að gerð yrði óháð úttekt á Landeyjahöfn og lögð fram áætlun um úrbætur. Vestmannaeyingar vilja að verkið sé klárað, þannig að halda megi úti siglingum um Landeyjahöfn árið um kring. Íris segir að þingmenn hafi tekið erindi sínu vel: „Menn finna aðra leið. Við erum bjartsýn á að það verði gert og þurfum að ýta á eftir því. Það er enginn annar sem tekur þann slag fyrir okkur.“ Nýr Herjólfur kemur í mars og eru miklar vonir bundnar við skipið. Ferðaþjónustan er á blússandi siglingu í Eyjum, mörg ný tækifæri að skapast, og framtíðin er björt. 

odinnj's picture
Óðinn Jónsson
dagskrárgerðarmaður