
Vilja virkja Dalavindinn
Viljayfirlýsing undirrituð á haustmánuðum
Sveinn Pálsson, sveitarstjóri í Dalabyggð, segir að þrír hafi haft samband með hugmyndir um að virkja Dalavindinni. Áform Storm Orku séu komin skrefinu lengra en hugmyndir hinna tveggja þótt enn séu þau á frumstigi, segir Sveinn. Fyrirtækið hefur fest sér 1700 hektara jörð á Hróðnýarstöðum og á haustmánuðum undirrituðu fyrirtækið og sveitarfélagið vilja- og samstarfsyfirlýsingu vegna áformanna. Búið er að auglýsa skipulags- og matslýsingu að breytingu á aðalskipulagi Dalabyggðar 2004-2016 þar sem gert er ráð fyrir vindorkugarði.
Gætu orðið 30-40 vindmyllur
Storm Orka er í eigu Magnúsar og Sigurðar Jóhannessona en fyrirtækið áformar að reisa 30-40 vindmyllur í landi Hróðnýjarstaða. Samkvæmt lýsingu sveitarfélagsins er áætlað er með þessu sé hægt að virkja allt að 100-130 MW raforku og mun hver vindmylla vera á milli 3-5 MW að stærð. Til samanburðar eru vindmyllurnar tvær við Búrfell aðeins minni en þessar eiga að verða. Magnús segir að að hámarki verði vindmyllurnar 40 en gætu orðið mun færri, enn á eftir að ráðast í undirbúningsvinnu en Magnús gerir ráð fyrir því að hún fari af stað í sumar. Þá eru í gangi viðræður við mögulega raforkukaupendur en ekkert frágengið, segir Magnús.
Áætlað er að halda íbúafund í Dalabyggð í næstu viku og fyrirhugaður vindorkugarður meðal fundarefna.