Vilja viðurkenna Ainu-fólkið sem frumbyggja

16.02.2019 - 17:10
Erlent · Asía · Japan
Mynd með færslu
 Mynd:
Ríkisstjórn Japans lagði fram frumvarp í gær þess efnis að Ainu-fólkið verði viðurkennt sem frumbyggjar. Þetta er í fyrsta sinn sem þarlend yfirvöld sýna vilja í þá veru. Áratugum saman hefur það verið stefna stjórnvalda að Ainu-fólkið taki upp tungumál og siði annarra í landinu.

Flestir sem tilheyra minnihlutahópnum Ainu búa í Norður-Japan á eyjunni Hokkaido en hluti þeirra býr einnig í Rússlandi, á Kúríl-eyjum og Sjakalín-eyju. Landnemum fjölgaði mikið í Japan á 15. öld og vegna yfirgangs þeirra flutti Ainu-fólkið norðar í landið. Árið 1899 voru sett lög sem bönnuðu Ainu-fólkinu að iðka eigin trú og menningu. Fólkið hefur síðan orðið fyrir margs konar mismunun og verið bannað nota tungumál sitt.

„Það er brýnt að varðveita virðingu og sæmd Ainu-fólksins svo að næstu kynslóðir fái að kynnast líflegu samfélagi þar sem mismunandi hefðir eru hafðar í hávegum,“ hefur AFP fréttastofan eftir Yoshihide Suga, talsmanni japönsku ríkisstjórnarinnar. Ásamt því að viðurkenna Ainu-fólkið sem frumbyggja ætla japönsk yfirvöld að styrkja samfélög þeirra. Þá fær fólkið leyfi til að höggva tré í skógum í eigu ríkisins til að nota við helgisiði sína. 

Mynd með færslu
Munnhörpuleikari af Ainu uppruna spilar í bænum Akan í norðurhluta Japans. Mynd:

Áætlað er að um 12.300 manns, hið minnsta, tilheyri hópi Ainu í dag. Þó er talið að þau séu mun fleiri þar sem mörg þeirra hafi ákveðið að halda uppruna sínum leyndum og hafi aðlagast japönsku samfélagi. Talið er að mörg þeirra viti jafnvel ekki af því að þau séu komin af Ainu-fólki. 

Vegna stefnu stjórnvalda síðustu áratugi er talið að margir af Ainu-uppruna hafi ekki lært þá siði og tungumál sem hefðu annars. „Fyrsta skrefið er að við verðum jöfn öðrum samkvæmt lögum,“ hefur AFP fréttastofan eftir Mikiko Maruko, talsmanni Ainu-fólks sem býr í nágrenni höfuðborgarinnar, Tókýó. 

Helsta einkenni Ainu-fólks, áður en lög gegn því voru sett árið 1899, var sítt skegg karlmanna og húðflúr sem konurnar voru með í kringum munn og á handleggjum. Í grein Washington Post um málið segir að erfðafræðilega sé líklegast að fólkið sé skylt ættflokkum á Andaman-eyjum á Indlandi og ættflokkum í Tíbet og í norðurhluta Mjanmar. Þá er talið að Ainu-fólkið sé afkomendur fyrstu landnemanna sem fóru frá Afríku til Asíu.

Mynd með færslu
Haruzo Urakawa í hefðbundnum klæðnaði Ainu-fólks. Myndin var tekin árið 2008 í Hokkaido á ráðstefnu um frumbyggja. Mynd:
dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi