Vilja uppfæra hringveginn í kortum Google

08.01.2018 - 14:44
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Rúnar Snær Reynisson - Skilti við Egilsstaði
Vegagerðin hefur ekki náð sambandi við Google vegna breytinga á vegakerfinu hérlendis, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. „Það er erfitt að ná sambandi við Google. Það er alltaf verið að breyta vegakerfinu og það er ekki rétt hjá þeim. Mikill fjöldi ferðamanna styðst við google maps hérlendis," segir G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar.

G. Pétur segir að stærsta breytingin á vegakerfinu, sem veldur því að vegakerfi Google gefur rangar upplýsingar, sé færsla hringvegarins af Breiðdalsheiði milli Fljótsdalshéraðs og Breiðdals. Þjóðvegur eitt liggur nú um suðurfirði. Breytingin var meðal annars gerð til að ferðamenn fari ekki upp á ófæra Breiðdalsheiði. Í korti á Google Maps liggur þjóðvegur eitt enn um Breiðdalsheiði og Skriðdal og ferðamenn lenda endurtekið í vandræðum á heiðinni. „Við höfum reynt að hafa samband við Google lengi og endurtekið, og höldum því áfram. Breiðdalsheiði er langstærsta breytingin sem Google þarf að uppfæra hjá sér," segir G. Pétur í samtali við fréttastofu.

Jökull Fannar Helgason, svæðisstjóri björgunarsveita á Austurlandi, telur að björgunarsveitirnar hafi farið að minnsta kosti tuttugu sinnum upp á Breiðdalsheiði í vetur til að hjálpa ferðamönnum sem sitja þar fastir. Veginum upp á er þó lokað með lokunarslá. Verktakar hafa einnig farið upp á heiðina að hjálpa fólki í vanda. Jökull segir að meirihluti ferðamanna fari Breiðdalsheiði af því að sá vegur er merktur þjóðvegur eitt á korti Google. „Þetta á eftir að lagast þegar uppfærslur koma á leiðsögutæki um að búið sé að færa þjóðveginn um firði," segir Jökull Fannar í samtali við fréttastofu. Hann segir að GPS-tæki velji stystu leiðina og fólk treysti þeim í einu og öllu.

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi