Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Vilja um 17 milljarða króna bætur frá Boeing

02.08.2019 - 12:28
Mynd með færslu
 Mynd: Ásgeir Tómasson - RÚV
Icelandair hyggst krefja Boeing um 17 milljarða króna í bætur vegna tjóns af kyrrsetningu MAX-8-vélanna. Forstjórinn áætlar að vélarnar verði teknar aftur í notkun í nóvember.

Gengi hlutabréfa í Icelandair lækkaði um 9% í 89 milljóna króna viðskiptum í morgun. Félagið tilkynnti í gær að það hefði tapað 11 milljörðum króna eftir skatta á fyrri helmingi ársins. Þessi slæma afkoma er að miklu leyti rakin til kyrrsetningar Boeing 737 Max-8-flugvélanna eftir tvö flugslys í vetur.

Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair fór yfir stöðuna á kynningarfundi á Hótel Natura í morgun og sagði að markmið Icelandair væri að fá allt tjónið bætt hjá flugvélaframleiðandanum Boeing.

Vitið þið hversu háa kröfu þið munið gera?

„Nei, við erum í viðræðum við Boeing um að fá þetta tjón bætt vissulega. Við höfum séð að Boeing er búið að taka til hliðar mjög háa fjárhæð í bókhaldi sínu til að bæta flugfélögum tjónið. Við erum búin að meta að tjónið á þessu ári á svokallað EBIT í okkar rekstrarreikningi miðað við núverandi forsendur séu um 140 milljónir dolllara, 17 milljarðar króna. Auðvitað getur það breyst. Okkar markmið er að fá allt okkar tjón bætt frá flugvélaframleiðandanum,“ segir Bogi.

Icelandair pantaði níu MAX-8-vélar frá Boeing og þrjár þeirra höfðu verið teknar í notkun þegar vélarnar voru kyrrsettar. Bogi gerir ráð fyrir því að kyrrsetningunni verði aflétt í lok október og Icelandair byrji að nota þær aftur í nóvember.

„Við höfum mikla trú á þessu viðamikla ferli sem er í gangi sem snýst um að tryggja öryggi max vélanna. Við höfum fulla trú á að þær fari í loftið aftur. Og við munum geta notað þær í okkar leiðakerfi á næsta ári,“ segir Bogi. 

En hvað munið þið gera ef það gengur ekki eftir, verður þá jafnmikið tap á komandi ársfjórðungum?

„Nei, ef það verður niðurstaðan - sem ég tel mjög ólíklega - að það komi í ljós að vélarnar fari ekkert í loftið á næsta ári, þá er náttúrlega fyrirvarinn miklu meiri sem við höfum til að bregðast við heldur en við höfðum núna. Þannig að við getum stillt af leiðarkerfið og brugðist við með mun meiri fyrirvara og kostnaðurinn og tekjutapið verður ekki nærri því eins,“ segir Bogi.