Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Vilja tvöfalda framlög í Kvikmyndasjóð

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Vilja tvöfalda framlög í Kvikmyndasjóð

25.12.2017 - 22:00

Höfundar

Bandalag íslenskra listamanna telur nauðsynlegt að stjórnvöld geri nýja áætlun um eflingu Kvikmyndasjóðs. Samkvæmt samningi félaga fagfólks í kvikmyndagerð við stjórnvöld frá í fyrra á að veita rúmar 1.100 milljónir króna í sjóðinn á næsta ári. Bandalag íslenskra listamanna telur að framlagið þyrfti að hækka í tvo milljarða árið 2020.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í umsögn Bandalags íslenskra listamanna um fjárlagafrumvarp næsta árs. Þar er farið yfir ýmsa þætti sem falla undir menningu og listir.

Í umsögninni er fundið að því að aðeins sé tilgreint í einni tölu í fjárlagafrumvarpinu hversu mikið fé eigi að leggja til verkefnatengdra sjóða á listasviðinu. Þetta segja forsvarsmenn Bandalags íslenskra listamanna að sé óásættanlegt, sérstaklega í ljósi yfirlýstra markmiða nýrri laga um opinber fjármál þar sem gagnsæi sé eitt af lykilhugtökunum.