Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Vilja tryggja gistingu langt fram í tímann

23.04.2016 - 19:26
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Rúnar Snær Reynisson - Ferðamenn við Hengifoss
Íslenskir hóteleigendur finna nú fyrir auknum þrýstingi frá erlendum ferðaskrifstofum sem vilja bóka gistingu lengra fram í tímann en áður. Erfiðara reynist fyrir nýjar ferðaskrifstofur að komast að hér á landi.

Það hefur lengi tíðkast að erlendar ferðaskrifstofur og aðrir fastir viðskiptavinir íslenskra hótela bóki gistingu fram í tímann.

Undanfarið hefur hinsvegar aukist mjög þrýstingur á að bóka lengra fram í tímann, jafnvel nokkur ár. Þessar ferðaskrifstofur upplifa að þær komast ekki lengur að hvar sem er.  „Þessir grófustu eru kannski í svona þremur árum. En við höfum oft verið að staðfesta upp í tvö ár en þeir eru farnir að teygja sig í þrjú ár,“ segir Ester Björnsdóttir, sölu-og markaðsstjóri Keahótela.

Það er margt sem þarna spilar inn í og eykur aðsóknina að Íslandi. Hóteleigendur sem rætt var við minntust á útrás flugfélaganna til Norður-Ameríku, nýir ferðaheildsalar hafa samband og þeir sem fyrir eru hafa aukið framboðið. Þá hefur flugfélögum sem fljúga til landsins fjölgað mikið. En hótelin verða ekki bókuð mörg ár fram tímann.

Ester segir að fastir viðskiptavinir sitji fyrir og því sé erfiðara fyrir þá sem eru nýir á markaðnum að komast að. „Við svona reynum að stýra þessu. Við náttúrulega tökum inn þá sem hafa verið hjá okkur ár eftir ár. Þessa sem við köllum seríur. Svo reynum við auðvitað að púsla hinu inn eins og hentar og passar,“ segir Ester.

Þrýstingurinn á að fá bókað lengra fram í tímann sé meiri úti á landi. „Það er náttúrulega kannski minna framboð á gistingu hér og uppbyggingin ekki orðin eins hröð hér eins og í Reykjavík.“

 

 

 

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV