
Vöxtur ferðaþjónustu aukið skattsvik
Starfshópurinn átti að greina umfang og áhrif skattundanskota og skattsvika á íslenskan þjóðarbúskap, ásamt því að gera tillögur um hvernig megi minnka svarta hagkerfið. Samkvæmt skýrslunni hafa aukin umsvif ferðaþjónustunnar leitt til vaxandi skattaundanskota, en auk ferðaþjónustunnar eru skattsvik mest innan byggingar- og verktakaiðnaðar.
Leggur hópurinn til ýmsar tillögur til að draga úr skattsvikum. Í fyrsta lagi er lagt til að lögfesta keðjuábyrgð, þannig að verktakar beri í auknum mæli ábyrgð á því að undirverktarar greiði þau opinberu gjöld sem þeim ber.
Seðlar verði teknir úr umferð
Hópurinn telur mikilvægt að hlutaskrár einkahluta- og hlutafélaga verði öllum opnar og aðgengilegar, til þess að stuðla að auknu gagnsæi. Þá er einnig lagt til að skorður verði settar við kennitöluflakki þannig að heimilt verði að setja þá í atvinnurekstrarbann sem hafa gerst sekir um sviksamlega viðskiptahætti.
Þá er lögð áhersla á að draga úr notkun reiðufjár á næstu árum til að gera svarta hagkerfinu erfiðara uppdráttar. Þannig er lagt til að tíu þúsund króna seðillinn verði tekinn úr umferð og í kjölfarið verði fimm þúsund króna seðillinn sömuleiðis tekinn úr umferð. Ennfremur leggur hópurinn til að hámarksfjárhæð verði sett vegna greiðslu fyrir vörur og þjónustu með reiðufé, til dæmis að upphæð 200.000 krónum, eða að verslunum verði heimilt að taka einungis við rafrænum greiðslum.
Vilja herða refsingar við skattsvikum
Fjallað er sömuleiðis um virðisaukaskattskerfið í skýrslunni og er bæði lagt til að fjölga gjalddögum og einfalda kerfið, með því að fækka undanþágum, minnka bilið milli skatþrepanna eða sameina þau.
Starfshópurinn telur að refsingar fyrir skattalagabrot séu of vægar og hafi þar af leiðandi lítinn fælingarmátt. Lítill hluti fésekta vegna brotanna innheimtast, eða innan við 10%. Skortur á rýmum í fangelsum gerir að verkum að fullnusta vararefsinga að baki sektum kemur sjaldan til framkvæmda. „Þessu þarf að breyta, enda taka afbrotamenn mið af þessu við skattalagabrot,“ segir í skýrslunni.