Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Vilja skýringar á yfirlýsingu Guðlaugs Þórs

05.02.2019 - 12:48
Guðlaugur Þór Þórðarson
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Rósa Björk Brynjólfsdóttir þingmaður Vinstri grænna og varaformaður utanríkismálanefndar Alþingis segir utanríkisráðherra ekkert samráð hafa haft við nefndina áður en hann tilkynnti opinberlega um stuðning Íslands við leiðtoga stjórnarandstöðunnar í Venesúela.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra sendi út yfirlýsingu í gær á Twitter um stuðning Íslands við Juan Guaidó og hann sagði í fréttum sjónvarps í gærkvöld að hann vonaðist eftir því að kosið yrði í Venesúela sem fyrst. Rósa Björk segir nefndina hafa fengið minnisblað í fyrradag en ekki um yfirlýsinguna sjálfa, og tölvupóst undir kvöld í gær.

Rósa segir að það sé ýmislegt í yfirlýsingunni sem þurfi að útskýra nánar og fara yfir. „Þess vegna höfum við kallað eftir ráðherra á okkar fund á morgun í utanríkismálanefnd og hann hefur tekið vel í það. Þar munum við fara yfir þetta mál og þessa yfirlýsingu og hvað hún í raun og veru inniber,“ segir Rósa Björk. 

Rósa segir mismunandi tón vera í yfirlýsingum Norðurlandanna. „Ég styð það að við höldum okkur þétt við Norðurlöndin en það er vissulega mismunandi í þeirra yfirlýsingum þannig að við þurfum kannski að fá það líka á hreint,“ segir Rósa. 

Rósa segir að utanríkisráðherra hafi ekki haft samráð við utanríkismálanefnd þingsins áður en hann gaf út yfirlýsingu sína í gær. „Ég er mikil talsmanneskja þess og það er skýrt í þingsköpum að það þurfi að vera skýrt samráð við utanríkismálanefnd í stórum utanríkismálum,“ segir Rósa þegar hún er spurð um hvað henni finnist um það. 

Rósa segist styðja það að haldnar verði lýðræðislegar kosningar í Venesúela sem fyrst. 

 

johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV