Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Vilja senda 34 ára mann á dvalarheimili

24.04.2018 - 18:29
Mynd: Freyr Arnarson / RÚV
34 ára karlmanni, sem hlaut alvarlegan heilaskaða, býðst það eitt að vera vistaður á hjúkrunarheimili, þar sem meðalaldurinn er áttatíu og þrjú ár. Móðir mannsins og forstjóri hjúkrunarheimilisins segja þetta óboðlegt. Öðrum manni á fertugsaldri var boðið pláss á sama hjúkrunarheimili í síðustu viku.

Fyrir um ári síðan gekk allt í haginn hjá Einari Óla Sigurðarsyni. Hann starfaði sem forritari og naut þess að verja tíma með 10 ára gömlum syni sínum. Í lok maí fór Einar Óli í ræktina, líkt og hann var vanur. Þar leið yfir hann og hann var fluttur á sjúkrahús. Þar kom í ljós að blætt hafði inn á heila Einars Óla. Eftir aðgerð hér á landi var ákveðið að senda hann til Svíþjóðar í aðgerð. Í aðgerðinni þar rofnaði gúll á stórri æð og næstu daga á eftir varð heili Einars Óla fyrir miklum súrefnisskorti. Eftir mánuð var Einar Óli sendur til Íslands þar sem hann fór á bráðadeild og síðar á Grensásdeild, endurhæfingardeild Landspítalans, þar sem hann hefur verið í átta mánuði. 

„Og hann getur ekkert hreyft sig eða tjáð sig,“ segir Aðalheiður Bjarnadóttir, móðir Einars Óla. „Hann getur ekki dinglað bjöllu eða gert neitt. Ekki kveikt á sjónvarpi. Þannig að við sitjum hjá honum til þess að hafa ofan af fyrir honum yfir daginn því hann er mjög meðvitaður um allt í kringum sig.“

Hafa íhugað að flytja úr landi

Aðalheiður segir að aðstæður á Grensásdeildinni séu mjög góðar og starfsfólkið frábært. En Einar Óli geti ekki verið þar lengur, Grensás sé ekki langtímaúrræði. „Og það er ýtt gríðarlega fast á okkur að fara í útskrift af því að það eru margir sem bíða eftir að fá að koma hérna inn. En þetta er bara ekki að gera sig. Og ábyrgðin er sett á okkur, að finna eitthvað annað í staðinn,“ segir Aðalheiður. „Og við erum búin að fara víða til að finna úrræði en við hlaupum alls staðar á veggi. Það hefur meira að segja hvarflað að manni að flýja land. Í alvöru. Það hefur hvarflað að manni. Að leita eitthvert annað, út úr landinu, eftir aðstoð.“

Í síðustu viku losnaði pláss á hjúkrunarheimilinu Mörk. Færni- og heilsumatsnefnd höfuðborgarsvæðisins lagði það til að Einar Óli yrði fluttur þangað. Meðalaldur heimilismanna á Mörk er 83 ár. Aðalheiður segir það ekki koma til greina, enda sé hjúkrunarheimili endastöð.

„Hann á 11 ára gamlan strák og mér finnst ekki boðlegt að strákurinn hans komi inn á elliheimili til að hitta pabba sinn,“ segir Aðalheiður. „Og svona ungur strákur sem var í toppformi, alltaf í ræktinni, gæti hugsanlega séð fram á að lifa áratugi í þessu ástandi. Og mér finnst þetta bara alls ekki boðlegt.“

„Skiptir bara meira máli“

Pálmi V. Jónsson, formaður færni- og heilsumatsnefndar höfuðborgarsvæðisins, segir í skriflegu svari til fréttastofu að æskilegast væri ef reyndar væru aðrar leiðir en dvöl á hjúkrunarheimilum, til dæmis sambýli fyrir fatlaða. Það að beiðni hafi borist fyrir Einar Óla bendi til þess að þeir sem beri ábyrgð á núverandi þjónustu hafi talið að ekki væru aðrir kostir í stöðunni. Ekki hafi verið spurning um annað en að samþykkja það mat.

„Maður dettur inn og út úr því að sætta sig við þetta og það væri auðveldast fyrir okkur að sætta okkur við þetta. En ég get ekki leyft mér að hugsa það því ég verð að hugsa um drenginn og drenginn hans. Það skiptir bara meira máli,“ segir Aðalheiður.

„Alls ekki gott“

„Við getum tekið undir sjónarmið aðstandenda þessa manns. Og það sjá það allir í hendi sér að þegar það er 50 ára aldursmunur á þeim sem búa þarna og þeim sem er ætlað að flytja þarna inn, að það gengur ekki upp, hvorki fyrir hann sjálfan, aðstandendur, starfsfólkið né hitt heimilisfólkið,“ segir Gísli Páll Pálsson, forstjóri Markar hjúkrunarheimilis.

Er oft farið fram á að svona ungt fólk komi til ykkar?

„Það er sem betur fer ekki oft en í þessi tilviki voru tvær tilnefningar, við fáum alltaf tvö nöfn til að velja úr þegar það losnar pláss hjá okkur. Þetta eru tilnefningar frá Færni- og heilsumatsnefnd höfuðborgarsvæðisins og í þetta skipti voru þetta 34 ára og 35 ára einstaklingar. Sem er alls ekki gott.“

En hvað er að?

„Það virðist vanta úrræði fyrir einstaklinga sem er ekki hægt að hjálpa meira, eins og í þessu tilviki, og ég held að það séu sambýlin sem vanti. Og samkvæmt mínum upplýsingum frá Landspítalanum er fjögurra til fimm ára bið eftir að komast inn á sambýli. Og þó svo að hægt sé að segja að hann komist af hjúkrunarheimili yfir á sambýli eftir 4-5 ár, þá er það ekkert boðlegt heldur. Tala nú ekki um ef hann verður þarna í 20, 30 eða 40 ár,“ segir Gísli Páll.

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV