Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vilja sækja til saka 20 menn

29.11.2019 - 12:03
epa07992910 People pay their respect at the entrance of the Bataclan concert venue after a ceremony marking the fourth anniversary of the Paris attacks of November 2015, in Paris, France, 13 November 2019. Terrorists targeted the Bataclan concert hall, as well as a series of bars in Paris on 13 November 2015, killing 130 people.  EPA-EFE/YOAN VALAT
Blóm lögð við minnisvarða við Bataclan-tónleikahúsið í síðustu viku. Mynd: EPA-EFE - EPA
Áformað er að sækja 20 menn til saka fyrir hryðjuverkaárásirnar í París í Frakklandi fyrir fjórum árum. Þetta kemur fram í skýrslu PNAT, embættis saksóknara sem fjallar um hryðjuverk. Niðurstaða rannsóknar á ódæðisverkunum var kynnt í morgun.

Hundrað og þrjátíu létu lífið í árásum íslamskra hryðjuverkamanna í París 15. nóvember 2015. Tíu hryðjuverkamenn gerðu skot- og sjálfsvígsárásir á nokkrum stöðum í borginni, á þjóðarleikvangi Frakka, Bataclan-tónleikastaðnum og á krám og veitingastöðum.

Allir árásarmennirnir nema einn létu lífið, en sá heitir Salah Abdeslam og er hann í haldi. Í ríflega 560 blaðsíðna ákæruskjali kemur fram að 13 menn til viðbótar, sem einnig eru í haldi, verði sóttir til saka, auk sex annarra sem enn leika lausum hala.

Í þeim hópi eru bræðurnir Fabien og Jean-Michel Clain, illræmdir áróðursmenn hryðjuverkasamtakanna Íslamska ríkisins, en samtökin kváðust hafa staðið á bak við ódæðisverkin í París. Vefmiðill Íslamska ríkisins staðhæfði í vor að bræðurnir hefðu fallið í loftárás í Sýrlandi skömmu áður.

Í þessum sex manna hópi er einnig Oussama Atar, sem talinn er hafa hjálpað til við undirbúning árásanna frá höfuðbækistöðvum Íslamska ríkisins í Raqqa í Sýrlandi. Hann er einnig sagður fallinn en það hefur ekki fengist staðfest.

Fimm dómarar höfðu umsjón með rannsókninni á árásunum í París, sem unnin var í samstarfi við yfirvöld í nokkrum ríkjum: þeirra bíður nú að ákveða hvenær réttaröld skuli hefjast, en líklegt þykir að það verði árið 2021. 

 

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV