Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Vilja rannsókn á Icesave-vinnu stjórnvalda

15.10.2013 - 15:19
Mynd með færslu
 Mynd:
Þrettán þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram þingsályktunartillögu á Alþingi um rannsókn á viðbrögðum íslenskra stjórnvalda vegna Icesave.

Þeir leggja til að skipuð verði sérstök rannsóknarnefnd á vegum Alþinigs. Þeirri nefnd yrði falið að rannsaka embættisfærslur og ákvarðanir íslenskra stjórnvalda og samskipti við hollensk og bresk stjórnvöld vegna innstæðna í útibúum Landsbankans erlendis. Þingmennirnir vilja að nefndin meti hvort ráðherrar og embættismenn hafi farið að lögum, hvort þeir hafi brotið gegn starfsskyldum sínum eða gerst sekir um mistök eða vanrækslu í hagsmunagæslu fyrir ríki og þjóð. Þingsályktunartillagan er samhljóða tillögum sem Sigurður Kári Kristjánsson, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokks, flutti í tvígang en fengust ekki afgreiddar.

Alþingi samþykkti þingsályktunartillögur um nokkrar rannsóknarnefndir eftir hrun. Fyrsta nefndin skilaði sjö binda skýrslu um hrunið. Síðar voru skipaðar nefndir um lífeyrissjóðina, Íbúðalánasjóð og sparisjóðina. Einnig var samþykkt að skipa rannsóknarnefnd um einkavæðingu bankanna. Sú nefnd hefur enn ekki verið skipuð þó ár sé frá samþykkt þingsályktunartillögunnar. Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, sagði í samtali við fréttastofu í síðustu viku að hún yrði ekki skipuð strax. Fyrst vilji forsætisnefnd Alþingis fara yfir reynsluna og kostnaðinn af störfum annarra rannsóknarnefnda.