Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Vilja lýsa Smáís gjaldþrota

20.08.2014 - 19:01
Mynd með færslu
 Mynd:
Stjórn Smáís, Samtaka myndrétthafa á Íslandi, hefur óskað eftir að félagið verði tekið til gjaldþrotaskipta. Ástæðan er sögð vera brot fyrrverandi framkvæmdastjóra samtakanna, sem stjórnin segir hafa viðgengist í mörg ár.

Samtökin voru stofnuð 1992 til að gæta hagsmuna rétthafa kvikmynda- og sjónvarpsefnis á Íslandi. Að Smáís standa Ríkisútvarpið, 365 miðlar, Skjárinn, sem rekur Skjá einn, Samfélagið, sem rekur Sambíóin og útgáfufyrirtækin Sena og Myndform.

Snæbjörn Steingrímsson var framkvæmdastjóri samtakanna frá 2007 til 2014 og var talsmaður þeirra í baráttunni gegn dreifingu á höfundarréttarvörðu efni á netinu.

Stjórn Smáís hefur nú lagt fram beiðni um gjaldþrotaskipti í Héraðsdómi Reykjavíkur. Í beiðninni, sem fréttastofa hefur undir höndum, kemur fram að við framkvæmdastjóraskipti í vor hafi komið í ljós að framkvæmdastjórinn fráfarandi hefði viðhaft háttsemi sem sé talin varða við almenn hegningarlög. Málið hafi verið kært til sérstaks saksóknara. Samkvæmt heimildum fréttastofu er lögreglurannsókn á frumstigi.

Stjórnin staðhæfir í gjaldþrotaskiptabeiðninni að ársreikningar félagsins hafi verið falsaðir um árabil, opinberum gjöldum hafi ekki verið skilað með réttum hætti og vanrækt hafi verið að færa bókhald. Þá hafi framkvæmdastjórinn viðurkennt fjárdrátt fyrir stjórninni.

Auk þess segir stjórnin að samtökin hafi ekki talið fram til skatts frá 2007 og reikningar með virðisaukaskatti hafi verið gefnir út eftir að virðisaukaskattsnúmeri félagsins hafi verið lokað 2011. Stjórnin segir að vegna þessa sé félagið ógjaldfært og stjórnin sjái sér ekki annað fært en að krefjast gjaldþrotaskipta.

Fréttastofa hefur einnig undir höndum kæru stjórnarinnar til sérstaks saksóknara og eru efnisatriðin í kærunni álíka og í gjalþrotaskiptabeiðninni. Hallgrímur Kristinsson, stjórnarformaður Smáís, segir að skuldir félagsins hafi verið orðnar þess eðlis að félagið sé óstarfhæft. Hann vildi ekki tjá sig um kæruna en segist harma málið. Framkvæmdastjórinn fyrrverandi vildi ekki tjá sig um málið þegar fréttastofa leitaði eftir því, enda hefði hann ekki séð kæruna.