Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Vilja lengingu fæðingarorlofs samþykkta í ár

30.10.2019 - 12:14
Mynd með færslu
 Mynd:
Samanlagður réttur foreldra til fæðingarorlofs lengist úr níu mánuðum í tólf ef lagafrumvarp félagsmálaráðherra verður samþykkt óbreytt á Alþingi. Gert er ráð fyrir að Alþingi afgreiði tillögur um lengra orlof fyrir áramót.

Frumvarp um breytingar á lögum um fæðingar- og foreldraorlof hefur verið lagt fram í samráðsgátt stjórnvalda. Í því er gert ráð fyrir að fæðingarorlof foreldra verði samanlagt tólf mánuðir. Samkvæmt núgildandi lögum er fæðingarorlof níu mánuðir samanlagt fyrir báða foreldra.

Ríkisstjórnin hefur bæði lofað og skuldbundið sig til þess að lengja rétt foreldra til fæðingarorlofs. Í stjórnarsáttmála er gert ráð fyrir lengingunni og í Lífskjarasamningnum sem gerður var í vor skuldbundu stjórnvöld sig til að efla fæðingarorlofskerfið með lengra orlofi. Jafnframt hefur verið gert ráð fyrir lengingunni í fjármálaáætlun stjórnvalda til ársins 2024.

Lenging í tveimur áföngum

Lengingin á að koma til framkvæmda í tveimur áföngum, samkvæmt frumvarpinu. Fyrsti áfanginn tekur til barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á næsta ári. Seinni áfanginn tekur til nýfæddra barna, ættleiddra eða varanlega fóstraðra barna frá ársbyrjun 2021.

Umsagnarfrestur um frumvarpið í samráðsgáttinni rennur út eftir tvær vikur. Gert er ráð fyrir að Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra mæli fyrir því á næstu vikum og að það verði afgreitt frá Alþingi fyrir áramót.

Á næsta ári verða 20 ár liðin frá því að fæðingarorlofslögin voru samþykkt á Alþingi. Lögin þóttu mikil samfélagsbót á sínum tíma en nú þau þykja vera komin til ára sinna. Ráðherra hefur skipað nefnd sem á að endurskoða lögin í heild og á sú vinna að liggja fyrir þannig að hægt verði að leggja fram frumvarp á haustþingi að ári.