Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Vilja landvörslu allt árið um kring

23.04.2018 - 13:40
Innlent · - · Náttúra
Mynd með færslu
Lokað hefur verið fyrir umferð um göngustíga í Reykjadal, ofan við Hveragerði.  Mynd: Haukur Holm - RÚV
Landvarðafélag Íslands hefur skorað á stjórnvöld að tryggja að landvarsla sé á landinu öllu allt árið og stuðla með því að fagmennsku við umönnun náttúru landsins til framtíðar. Þetta kemur fram í áskorun sem Landvarðafélagið sendi Umhverfis- og auðlindaráðuneyti í dag.

Í áskoruninni segir að álag á náttúru landsins hafi aukist mikið á undanförnum árum. „Ferðamannastraumurinn hefur margfaldast á fáeinum árum og er nú umtalsverður árið um kring, en landvarsla hefur því miður ekki fengið að fylgja þeirri þróun. Þörfin á landvörslu allt árið um kring hefur aldrei verið meiri. Nú er svo komið að ekki verður lengur við unað. Enn sem komið er njóta aðeins fáir staðir á landinu heils árs landvörslu. Þeir fáu landverðir sem ráðnir eru yfir vetrartímann eru sjaldnast fastráðnir, heldur eru þeir ráðnir tímabundið, aðeins nokkrar vikur eða mánuði í senn,“ segir í áskoruninni. Atvinnuöryggi landvarða sé því nánast ekkert og starfsmannavelta mikil. Það hafi í för með sér að staðþekking glatist.

Umhverfisstofnun hefur lokað þremur svæðum nýlega vegna fjölda ferðamanna og yfirvofandi skemmda. Í áskoruninni segir að landverðir hafi verið kallaðir til til að tryggja að ferðamenn virði þessar lokanir. „Augljóst er að ef fyrr hefði verið gripið inn í væri staðan ekki jafn slæm sem aftur sýnir þörfina á betri stýringu og meiri landvörslu á okkar viðkvæmu náttúru. Tímabilið þegar frost fer úr jörðu er erlendis þekkt sem mud seasons og þá er umferð um vegi og göngustíga á ferðamannasvæðum ávallt takmörkuð í takt við aðstæður og ferðafólk þekkir það,“ segir í áskoruninni. Frost fari úr jörðu á hverju ári hérlendis og því ætti að grípa inn í áður en skaðinn er skeður.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir