Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Vilja lána varðskip án endurgjalds

23.04.2015 - 11:02
Varðskipið Týr komið með flóttamenn sem það bjargaði á Miðjarðarhafi páskana 2015 til Pozzallo á Sikiley.
 Mynd: Gísli Einarsson - RÚV
Þingmenn VG hafa lagt fram þingsályktunartillögu um þátttöku Íslendinga í björgunaraðgerðum á Miðjarðarhafi. Þingmennirnir vilja stórefla þátttöku í þeim með því að varðskip verði lánað til aðgerða án endurgjalds og að gerð verði áætlun um móttöku flóttamanna af svæðinu.

 Í greinargerð með tillögunni segir að íslenska varðskipið Týr hafi verið leigt út til Frontex, landamærastofnunar Evrópusambandsins og tekið þátt í Triton-aðgerðinni á Miðjarðarhafi. Leigutímanum ljúki í maí og því ekki horfur á öðru en Týr hverfi af svæðinu. Lagt er til að gæslan fái fé svo varðskip geti sinnt björgunarstörfum á Miðjarðarhafi út sumarið án endurgjalds en þá verði lögð áhersla á samstarf við hjálparsamtök en ekki landamærastofnanir. Enn fremur er lagt til að mótuð verði áætlun um móttöku flóttamanna frá hinum stríðshrjáðu löndum við Miðjarðarhaf, þar á meðal Sýrlandi og Líbíu. Telja flutningsmenn að Ísland beri sérstaka ábyrgð á flóttamönnum frá Líbíú vegna stuðnigs við loftárásir þar 2011.

annakj's picture
Anna Kristín Jónsdóttir
Fréttastofa RÚV