Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Vilja kynna Katrínu annan valkost en til hægri

Mynd með færslu
 Mynd: Hreiðar - RÚV
Fulltrúar Pírata, Viðreisnar og Samfylkingarinnar hittust á fundi í morgun og ræddu möguleika á samstarfi í ríkisstjórn. Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segir að flokkarnir hafi rætt helstu mál sem blasi við að þurfi að ráðast í á næstunni og að með þeim hafi verið góður samtónn. Þeir ætla að kynna þetta fyrir Katrínu Jakobsdóttur, formanni Vinstri-grænna, sem annan valkost til stjórnarmyndunar við samstarf Vinstri-grænna við Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata ræddu framtíðina, breytt stjórnmál, stjórnarskrármál, heildarendurskoðun heilbrigðiskerfisins, menntamál, mannréttindi og launamun kynjanna auk annars, segir Logi. „Ég hef ekkert dulið það að ég tel að stjórn frá miðju til vinstri sé enn vænlegasti og besti kosturinn fyrir íslensk stjórnmál og þjóðina.“

Logi sagði að fulltrúar flokkanna þriggja hafi rætt almennt um það sem þurfi að takast á við. „Auðvitað eru þetta ólíkir flokkar, þessir þrír eins og hinir fjórir voru líka,“ segir Logi. Fulltrúar þeirra hafi þó náð vel saman. „Sama hvernig fer geta þessir flokkar örugglega unnið saman, hvort sem það er í ríkisstjórn eða málefnalega grimmri stjórnarandstöðu.“

Logi greindi Katrínu Jakobsdóttur, formanni Vinstri-grænna, frá því í gær að fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Viðreisnar myndu ræða saman í dag. Hann ætlar að heyra aftur í Katrínu eftir þingflokksfund Vinstri-grænna og kynna henni mögulegan valkost við þá stjórnarmyndun sem helst hefur verið rædd að undanförnu, það er að segja samstarf Sjálfstæðisflokksins, Vinstri-grænna og Framsóknarflokksins.