Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vilja Ísland inn eftir áratugs fjarveru

27.12.2019 - 12:05
Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson - RUV
Íslensk stjórnvöld hafa ekki svarað erindi frá NASCO, alþjóðasamtökum sem berjast fyrir verndun villta laxastofnsins í Norður Atlantshafi, þar sem þess er óskað að Ísland gerist aftur aðili að samtökunum. Áratugur er síðan Ísland sagði sig frá NASCO af fjárhagsástæðum.

NASCO eru alþjóðleg samtök sem berjast fyrir verndun villta laxastofnsins í Norður-Atlantshafi. Aðild að samtökunum eiga Noregur, Rússland, Evrópusambandið og Danmörk sem einnig kemur fram fyrir hönd Grænlænds og Færeyja. Bandaríkin og Kanada hafa tillögu- og atkvæðarétt á fundum samtakanna. 

Hrunið kallaði á úrsögn

Ísland er stofnaðili að NASCO en sagði sig úr samtökunum um mitt ár 2009. Ástæðurnar voru sagðar fjárhagslegar en úrsögnin var liður í umfangsmiklum sparnaðaraðgerðum stjórnvalda í kjölfar bankahrunsins. Samkvæmt upplýsingum frá sjávarútvegsráðuneytinu voru aðildargjöldin að NASCO 9,3 milljónir króna á þeim tíma og annar kostnaður við aðild fjórar milljónir. Íslensk stjórnvöld sögðust vonast til að úrsögnin væri tímabundin og vonir stæðu til þess að ganga aftur í samtökin þegar betur áraði.

Bréfi forseta ósvarað

Það hefur hins vegar ekki gerst og í mars á þessu ári skrifaði forseti NASCO bréf til íslenskra stjórnvalda þar sem þau voru hvött til þess að ganga aftur í samtökin. Segir í bréfinu að ógn við villtan lax í Norður-Atlantshafi kalli á samhæfð alþjóðleg viðbrögð og þar skipti þátttaka Íslands miklu máli.

Bréfinu var hins vegar aldrei svarað og samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu hefur ekki verið ákveðið hvort gengið verður aftur í NASCO, en málið mun vera til skoðunar.

Magnús Geir Eyjólfsson