Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Vilja hefja sameiningarviðræður í haust

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhanns Jónsson - RUV.is
Bæjarstjórnin í Stykkishólmsbæ vill efna til viðræðna um sameiningu fjögurra sveitarfélaga á Snæfellsnesi. Forsvarsmenn hinna sveitarfélaganna vilja að viðræður eigi sér stað milli fimm sveitarfélaga, Snæfellsbæ meðtöldum, en því hefur Snæfellsbær hafnað.

Bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar fékk tillögur frá ráðgjöfum um að leggja til viðræður um sameiningu fjögurra sveitarfélaga á Snæfellsnesi -Stykkishólmsbæjar, Helgafellssveitar, Eyja- og Miklaholtshrepps og Grundarfjarðarbæjar. „Þessi fjögur sveitarfélög, sem hafa þá 2200 íbúa gætu styrkt stöðu sína mjög mikið með því að sameina starfsemina. Eitt öflugra sveitarfélag sem hefur sameiginlega meiri tekjur og getur sparað í rekstrinum hefur þá meiri afgang til að skapa nýja starfsemi og aukna þjónustu,“ segir Sturla Böðvarsson, bæjarstjóri Stykkishólmsbæjar.

Íbúar Stykkishólms eru 1150, Grundarfjarðar um 900, fimmtíu í Helgafellssveit og um 140 í Eyja- og Miklaholtshreppi. Sveitarfélögin þrjú hafa tekið tillögu Stykkishólmsbæjar fyrir en vilja einnig fá fimmta og stærsta sveitarfélagið á Snæfellsnesi, Snæfellsbæ, að borðinu. Bæjarráð Snæfellsbæjar hefur hins vegar hafnað því boði. Vilji sé til samstarfs en ekki sameiningar. Ekki er ljóst hvaða áhrif það hefur á afstöðu sveitarfélaganna þriggja en vonast er til að viðræður hefjist í ágúst.

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður