Vilja grænar áherslur í utanríkismálum

11.02.2020 - 13:40
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Meirihluti þingmanna í utanríkismálanefnd Alþingis vill að ríkisstjórnin útfæri græna utanríkisstefnu. Þingmennirnir vilja jafnframt að skipaður verði sendiherra loftslagsmála og að loftslagsmarkmið verði höfð í huga í fríverslun og þróunarsamvinnu. „Það er nauðsynlegt að við grípum til róttækra aðgerða til að sporna við loftslagsbreytingum á öllum sviðum samfélagsins, þar eru utanríkismálin ekki undan skilin,“ segir Rósa Björk Brynjólfsdóttir, fyrsti flutningsmaður tillögunnar.

Aðgerðir í loftslagsmálum snúast um alþjóðlega samvinnu, segir Rósa Björk. „ Mér hefur þótt skorta á að við tökum þetta upp í okkar utanríkisstefnu.“ Rósa segir að tillagan sé að norrænni fyrirmynd. Hún vísar til þess að danska utanríkisráðuneytið hafi kynnt verkefni til þess að koma dönskum lausnum í loftslagsmálum á framfæri. Einnig til þess að Finnar tileinka stórum hluta af þróunarsamvinnustefnu sinni loftslagsmálum í þróunarríkjum.

Mynd með færslu
 Mynd: Pexels

Sex af níu aðalmönnum í utanríkismálanefnd Alþingis standa að tillögunni. Auk Rósu Bjarkar eru það Ari Trausti Guðmundsson, flokksbróðir hennar, Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Miðflokksins, Smári McCarthy, þingmaður Pírata, og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar. Sjálfstæðismennirnir Sigríður Á. Andersen, formaður utanríkismálanefndar, og Bryndís Haraldsdóttir standa ekki að tillögunni. Það gerir Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, ekki heldur.

Meðal aðgerða sem þingmennirnir leggja til er skipun sendiherra loftslagsmála sem samhæfi stefnu og skilaboð Íslands erlendis um loftslagsmál og hafi yfirumsjón með upplýsingagjöf. Þingmennirnir vilja líka að sérstök sendiráð verði útnefnd græn sendiráð með megináherslur og verkefni á sviði loftslags- og umhverfismála. Að auki eigi að stofna sérstaka umhverfis- og loftslagsskrifstofu í utanríkisráðuneytinu og tryggja henni nægan mannafla og fjármuni.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi