Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Vilja fyrrverandi forseta framseldan

20.11.2019 - 09:16
epa06855413 The Paraguayan President, Horacio Cartes, presents his last report before the Paraguayan Congress at the headquarters of the Bicameral Commission, in Asuncion, Paraguay, 01 July 2018.  EPA-EFE/ANDRES CRISTALDO
Horacio Cartes að flytja sína síðustu ræðu sem forseti á þingi Paragvæ í fyrra. Mynd: EPA-EFE - EFE
Yfirvöld í Brasilíu hafa gefið út alþjóðlega handtökuskipun á hendur Horacio Cartes, fyrrverandi forseta Paragvæ, og vilja fá hann framseldan. Cartes var forseti Paragvæ á árunum 2013-2018.

Brasilísk yfirvöld segja hann hafa útvegað glæpasamtökum jafnvirði um 70 milljarða króna að beiðni vinar síns Dario Messer.

Messer, sem er bæði með ríkisfang í Brasilíu og Paragvæ, var þá á flótta undan réttvísinni sakaður um spillingu. Hann var handtekinn í Sao Paulo í júlí og er talinn leiðtogi glæpamanna sem stundað hafi umfangsmikið peningaþvætti og beitt mútum til að fá sínu fram.

Horacio Cartes er einn af auðugustu kaupsýslumönnum Paragvæ og situr nú á þingi sem fulltrúi í efri deild þess.

Mario Abdo Benitez, núverandi forseti Paragvæ, sagði í gærkvöld að stjórnvöld myndu skoða ásakanir Brasilíumanna á hendur Cartes og lagði áherslu á að fólk yrði að svara til saka fyrir glæpi sem það fremdi.

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV