Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Vilja fund í Öryggisráði SÞ vegna N-Kóreu

16.09.2018 - 06:33
epa03652667 North Korean and Chinese flags fly on a mast of a boat in a Chinese shipyard along the Yalu River bordering North Korea near the town of Sinuiju, in the Hailong village of Dandong, Liaoning Province, China, 07 April 2013. Many of the vessels
 Mynd: EPA
Bandaríkin krefjast fundar í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna vegna tilrauna nokkurra ríkja til að grafa undan og hindra viðskiptaþvinganir í garð Norður-Kóreu. Sendinefnd Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum segist vilja ræða framkvæmd þvingananna á fundi Öryggisráðsins á mánudag.

Bandaríkjastjórn sakaði stjórnvöld í Moskvu um það fyrir helgi að breyta sjálfstæðri rannsóknarskýrslu Sameinuðu þjóðanna.Telur stjórnin að Rússar hafi eytt út texta þar sem rússnesk fyrirtæki eru sökuð um að brjóta gegn viðskiptaþvingunum á Norður-Kóreu. Áður höfðu Bandaríkin sakað bæði Rússland og Kína um að flytja olíu ólöglega til Norður-Kóreu. Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segist vonast til þess að Sameinuðu þjóðirnar gefi út óritskoðaða skýrslu.

Viðskiptaþvinganir voru fyrst lagðar á Norður-Kóreu árið 2006 og hafa aukist mikið undanfarin ár. Bandaríkin vilja viðhalda þvingununum þar til Norður-Kórea hefur að öllu leyti afvopnast kjarnavopnum og hættir þróun og framleiðslu þeirra. 
 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV