Vilja fresta Ólympíuleikunum til 2021

epaselect epa08308378 Japanese Olympic judo champion Tadahiro Nomura (R) and Olympic women's wrestling champion Saori Yoshida (L) carry the Olympic torch during the Olympic flame arrival Ceremony at Japan Air Self-Defense Force Matsushima Air Base in Higashimatsushima, northern Japan, 20 March 2020. The Tokyo 2020 Olympic Flame Arrival Ceremony was scaled down over fears of coronavirus. Japanese Prime Minister Shinzo Abe is still considering holding the Tokyo Olympics as scheduled despite the current coronavirus pandemic.  EPA-EFE/KIMIMASA MAYAMA
Japanska glímukempan Saori Yoshida (t.v.) og landi hennar, júdókappinn Tadahiro Nomura, bæði Ólympíumeistarar í sinni grein, með Ólympíukyndilinn, sem kveikt var á í Aþenu 19. mars og er nú á ferð um Japan.  Mynd: EPA-EFE - EPA

Vilja fresta Ólympíuleikunum til 2021

23.03.2020 - 04:09
Ólympíunefndir Kanada og Ástralíu hafa lýst því yfir, að ekki komi til greina að senda keppendur til leiks á Ólympíuleikana í Tókýó í sumar vegna COVID-19 heimsfaraldursins, og fara fram á að leikunum verði frestað til 2021. Bæði forsætisráðherra Japans og framkvæmdastjórn Alþjóða Ólympíunefndarinnar hafa nú fyrsta sinni viðrað þann möguleika að fresta leikunum.

Neita að senda lið í ár vegna COVID-19

Þrýstingur fer nú mjög vaxandi á Alþjóða Ólympíunefndina að fresta leikunum um ár. Í gærkvöld tilkynntu Ólympíunefndir Kanada að engir kanadískir keppendur yrðu sendir til Tókýó, hvorki á Ólympíuleikana né Ólympíumót fatlaðra.

Í yfirlýsingu nefndanna lýsa þær skilningi á því að það geti haft ýmsa erfiðleika í för með sér að fresta leikunum, en heilsa og öryggi keppenda hljóti alltaf að vera forgangsatriði og því sé rétt að fresta leikunum um minnst eitt ár. Tekið er fram að Ólympíunefndirnar njóti fyllsta stuðnings keppenda, sérsambanda og ríkisstjórnar Kanada hvað þetta varðar.

Sama er uppi á teningnum í Ástralíu þar sem ástralska Ólympínefndin fundaði í morgun. Að fundi loknum sagði formaður nefndarinnar, Ian Chesterman, að það væri „alveg ljóst“ að leikarnir gætu ekki farið fram í júlí og beindi þeim tilmælum til ástralsks afreksíþróttafólks að það miðaði undirbúning sinn við að leikarnir verði haldnir sumarið 2021. 

„Allir möguleikar til skoðunar“

Hvorki yfirvöld í Japan né stjórn Alþjóða Ólympíunefndarinnar hafa til skamms tíma hvikað frá þeirri afstöðu sinni, að Sumarólympíuleikarnir 2020 skuli haldnir í Tókýó á tilsettum tíma og hefjast hinn 24. júlí, hvað sem öllum veirufaraldri líður. Á því varð breyting í gær, þegar Ólympíunefndin lýsti því yfir að loknum fundi að þótt ekki kæmi til greina að fella leikana niður, þá væru allir aðrir möguleikar í stöðunni til skoðunar, þar á meðal frestun leikanna.

Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, tók síðan í sama streng þegar hann ávarpaði japanska þingið í morgun. Sagði Abe Japani enn staðráðna í því að halda leikana, óskerta. „En ef það reynist erfiðleikum bundið, með tilliti til þess að tryggja heilbrigði íþróttafólksins, þá gæti orðið óhjákvæmilegt að fresta þeim,“ sagði forsætisráðherrann.

 

Tengdar fréttir

Ólympíuleikar

Opna á að fresta Ólympíuleikunum