Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Vilja framkvæmdir við Svartá í umhverfismat

26.01.2016 - 12:10
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fulltrúar Fiskistofu, Umhverfisstofnunar og Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra eru sammála um að gera þurfi umhverfismat vegna fyrirhugaðrar virkjunar Svartár í Þingeyjarsveit. Fiskistofa segir ána vera sjaldgæfa á heimsvísu.

 

Þetta kemur fram í umsögnum sem skilað hefur verið til Skipulagsstofnunar. Óskað var eftir þeim vegna hugsanlegrar matsskyldu virkjunarinnar. Hún á að framleiða 9,8 megavött en til þess að framkvæmd sem þessi fari sjálfkrafa í umhverfismat þarf hún að framleiða 10 megavött eða meira. Skipulagsstofnun þarf aftur á móti að meta hvort þörf sé á slíku mati og kallaði því eftir umsögnunum.

Skýrsla Verkís ófullnægjandi
Umhverfisstofnun telur að fjalla hefði þurft nánar um fyllingar í árfarvegum í skýrslu sem verkfræðistofan Verkís vann fyrir SSB-orku, sem reisir virkjunina. Einnig að fjalla hefði þurft ítarlegar um aðgerðir til að draga úr neikvæðum áhrifum á hallamýri þar sem leggja á langa pípu í gegnum mýrarsvæði. Telur stofnunin, að ef ekki verður vandað til verka, verði umhverfisáhrifin umtalsverð. Undir þetta tekur Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra. Segir í umsögn að því hafi ekki verið svarað hvaða áhrif svo stór virkjun hafi á lífríki Svartár.

Hafi neikvæð áhrif á fisk
Meðal þess sem til stendur er að stífla ána og veita henni um þriggja kílómetra langa pípu í stöðvarhús, en tryggja á móti lágmarksrennsli til að viðhalda hrygningarskilyrðum. Fiskistofa telur að þetta hafi neikvæð áhrif á fiskistofna í ánni. Auk þess sé áin einstök á heimsvísu þar sem hún sé lindá. Slíkar ár séu óalgengar og tengist sérstöðu Íslands og ungu bergi.

Skipulagsstofnun fer nú yfir umsagnir og tekur afstöðu til þess hvort ráðast þarf í umhverfismat.

Rögnvaldur Már Helgason
Fréttastofa RÚV